Körfubolti

„Á­ægður með að hún skuli hafa tekið af skarið og látið til sín taka“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Það var sannkallaður nágrannaslagur í 2. umferð Bónus deildar kvenna þegar Keflavík tók á móti Njarðvík í Blue höllinni í kvöld. Eftir mikinn baráttuleik var það Keflavík sem sigldi fram úr á lokakaflanum og hafði betur 99-79.

„Mjög ánægður með sigurinn fyrst og fremst. Að mestu leyti fannst mér spilamennskan bara fín. Hún var ekki gallalaus en ég átti heldur ekkert von á því,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Mér fannst orka í liðinu og jákvæðni. Mér fannst við leysa betur ýmsar stöður heldur en í síðustu tveimur leikjum. Við nýttum svo tækifærið þegar við náðum að tengja. Við skoruðum góðar körfur og náðum að stoppa strax í kjölfarið og þar byrjaði svolítið að breikka bilið.“

Thelma Dís Ágústsdóttir átti tvo risa þrista í upphafi fjórða leikhluta sem var að einhverju leyti vendipunkturinn í leiknum.

„Algjörlega. Hún er auðvitað frábær skotmaður og þetta var mjög kærkomið. Ég er mjög ánægður með að hún skuli hafa tekið af skarið og látið til sín taka. Það var mjög gott og kærkomið. Það hjálpaði okkur auðvitað klárlega.“

Eftir brösótta byrjun á tímabilinu er Keflavík komið á blað og búnar að sækja sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

„Þetta virkar á mig sem jöfn byrjun þannig að hver sigur skiptir máli. Eins bara fyrir okkur þá er ég bara ánægður stelpnana vegna. Það eru auðvitað ákveðin skörð í okkar liði en við vorum og erum samt bara búin að vera upptekin af því liði sem við erum með núna. Við erum að reyna gera þá leikmenn betri og takast betur á við þau verkefni sem eru framundan. Við teljum að þær verði einfaldlega betri þegar á líður og hópurinn verður þá bara enn sterkari. Ég er mjög ánægður með að vera komin með sigur á töfluna, það er klárt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×