Ég fagna ályktun hreyfingarinnar (áður þekkt sem Vinstrihreyfingin grænt framboð) að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til kosninga í vor. Ég var hluti að ályktun sem að miðstjórn Ungs jafnaðarfólks sendi frá sér, þar sem kallað var eftir kosningum í apríl síðastliðnum þegar að fyrrum forsætisráðherra ákvað að hoppa frá borði og fara frekar í forsetaframboð. Ekki hefur verið fallið frá þeirri kröfu.
Þó að ég fagni ályktun hreyfingarinnar þá er greinilegt að hún hafi verið geld á landsfundi. Að segja „æskilegt sé að boða til kosninga í vor“ er ekki loforð um kosningar heldur gylliboð fyrir fólkið í landinu sem að á skilið og þráir breytingar. Þjóðin gæti því setið uppi með óstarfhæfa ríkisstjórn fram í september á næsta ári.
Traust ríkisstjórnarinnar hefur aldrei verið minna og liggur við að landsfundur hreyfingarinnar hafi verið ákveðin púðurtunna inn í stjórnarsamstarfið. Ástandið var eldfimt fyrir en dagana eftir landsfund eru stjórnarflokkarnir lítið búnir að gera annað en að grafa djúpar skotgrafir og kenna hvort öðru um slæmt gengi ríkisstjórnarinnar. Á meðan að ríkistjórnarflokkarnir rífast blæðir heimilum landsmanna út.
Ríkisstjórnarsamstarfið sem virðist hanga saman á frasanum „það eru mikilvægir málaflokkar sem þarf að vinna að“. GUÐ BLESSI ÍSLAND! Ríkisstjórnin hefur ekki getað sinnt mikilvægum málaflokkum í sjö ár og er að öllum líkindum ekki að fara ná að vinna saman í dauðateygjunum.
Ríkisstjórnarsamstarfið er löngu komið á leiðarenda og æskilegt að boða sem fyrst til kosninga. Fólkið í landinu á betra skilið.
Höfundur situr í framkvæmdarstjórn Ungs jafnaðarfólks.