Bukayo Saka er einn af lykilmönnum bæði Arsenal og enska landsliðsins og því ekki að ástæðulausu sem menn verða áhyggjufullir þegar fregnir berast af meiðslum Saka.
Saka lék með enska landsliðinu sem tapaði fyrir Grikklandi á fimmtudag en varð að fara af velli í upphafi seinni hálfleiks vegna meiðsla.
Lee Carsley, bráðabirgðastjóri enska liðsins, greindi hins vegar frá því í dag að meiðsli Saka væru ekki alvarleg og að leikmaðurinn hefði getað spilað með Englendingum á móti Finnum í dag.
„Bukayo hefði verið nálægt því að ná leiknum en það hefði verið ósanngjarnt að taka áhættu með hann. Hann er jákvæð manneskja og ég býst við að hann verði í góðu lagi,“ sagði Carsley í samtali við blaðamenn.
Saka hefur spilað frábærlega hingað til á tímabilinu, skorað þrjú mörk og lagt upp sjö í fyrstu tíu leikjum Arsenal. Meiðslin vekja án efa upp spurningar um álagið á leikmanninum sem hefur verið í byrjunarliði í öllum leikjum Arsenal og Englands í upphafi tímabilsins.