Skoðun

Til borgar­stjóra

Maríanna S. Bjarnleifsdóttir skrifar

Kjarabarátta hinna mörgu stétta sem byggja þetta land getur tekið á hjá atvinnurekendum, launþegum og þeim sem nýta sér vinnu og þjónustu þeirra sem berjast fyrir betri kjörum. Stundum lætur fólk leiðinleg ummæli frá sér í spjalli við fólk vegna pirrings og að mörgu leyti er það skiljanlegt því mannlegt eðli verður til þess að við segjum eitthvað særandi þegar við verðum sár, reið og leið. Í gær þá varð ég sár, reið og leið út í þín ummæli. Þeir nemendur sem ég kenni fengju stórkostlegar athugasemdir frá mér ef þeir töluðu svona niður til annarra í minni skólastofu. Ég kenni unglingum og þarf því að sýna gott fordæmi um hvernig ég kem þessu frá mér og get ekki leyft mér að skrifa það sem mig langar helst að segja. Hér kemur því kurteisa útgáfan af því sem ég vil koma frá mér.

Ég skil að þú viljir ekki auka útgjöld vinnustaðar þíns þar sem starf þitt er fólgið í því að láta bókhaldið stemma en tel að fólk menntað í mannauðsmálum myndi seint telja þetta jákvæða leið til þess. Kraftur kennara er mikill og þú temur þá ekki til hlýðni með því að tala þá niður og alhæfa um hluti sem þú greinilega hefur ekki haft fyrir að kynna þér.

Að tala um að kennarar nenni ekki að vera með nemendum sínum er að ráðast gegn því sem heldur okkur í starfinu. Ástríðan fyrir nemendum er það sem hélt kennurum gangandi í heimsfaraldri, heldur þeim áfram í starfi og það sem drífur þá áfram. Ekki eru það launin eða önnur fríðindi sem öðrum á almennum vinnumarkaði býðst.

Einar þú ert yfirmaður okkar sem vinnum hjá Reykjavíkurborg og ég tel líklegt að á opinberum vinnumarkaði myndir þú þurfa að taka pokann þinn ef þú gerðist sekur um svona ummæli um starfsfólk þitt.

Þú potaðir í ranga stétt og ég ráðlegg þér að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum þínum.

Höfundur er grunnskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×