Skoðun

„Samt veikari en nokkrum sinnum fyrr‟

Helga Gunnarsdóttir skrifar

Háttvirtur borgarstjóri, á nýliðinni Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sagðir þú meðal annars að veikindadagar kennara bæru merki um að Reykjavíkurborg væri að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Í sama tilgangi sagðir þú að kennarar vilji sem minnst umgangast nemendur og að kennarar vilji bara vera í undirbúningi og styttingu vinnuvikunnar.

Þegar kennarar landsins, sem sátu þessa ráðstefnu með þér, voru mögulega búnir að opna augu þín fyrir því að þarna hefðir þú verið að tala niður til kennara og starf þeirra vildir þú meina að orð þín hefðu átt að sýna hvað þú berð mikla virðingu fyrir okkur og að þú viljir bæta aðstöðu okkar.

En í umræddu innslagi þínu á ráðstefnunni talaðir þú svo sem um að þú vildir að kennarar væru ánægðir og hamingjusamir í starfi til þess að þeir skiluðu þeim afköstum sem þið eruð lagalega skikkuð að veita.

Þú sagðir bæði á fjármálaráðstefnunni og í tilraun þinni til þess að reyna að svara fyrir orð þín að veikindahlutfall kennara í Reykjavík sé 8-9%. Það kom ekki fram hvort þar væri miðað við almanaksárið 2024, skólaárið 2023-2024 eða það sem er liðið af skólaárinu 2024-2025.

Í þessu ávarpi þínu talaðir þú um að stytting vinnuvikunnar í skólunum væri kostnaðarsöm í Reykjavík. Ég sé ekki hvernig það gengur upp þar sem í grunnskólunum er styttingin tekin á tímanum sem tilheyrir undirbúningnum, sem þér virðist líka vera í nöp við, og ég veit að í leikskólunum hafa þeir tímar ekki heldur tengst því að inn komi afleysing, þannig að ég ætla ekki að ræða það neitt frekar hér.

En varðandi spurninguna, eða réttara sagt fullyrðinguna, sem þú sjálfur varpaðir fram svona í framhjáhlaupi þá já, það er ýmislegt sem þið í borgarstjórn Reykjavíkurborgar hafið gert mjög rangt sem meðal annars hefur áhrif á veikindadaga starfsfólks ykkar.

Ég er kennari í einum af grunnskólum Reykjavíkur, og ein af þeim kennurum sem á þessu almanaksári hefur þurft að fara í veikindaleyfi, það var á síðasta skólaári samt. Veikindi mín stöfuðu ekki af því að ég nennti ekki að umgangast nemendur mína eða hafði ekki metnað fyrir starfi mínu, eins og þú sagðir á umræddri ráðstefnu. Nei, veikindi mín stöfuðu af því að það er mygla í skólahúsnæðinu.

Síðan ég byrjaði að kenna við þennan grunnskóla í Reykjavík hef ég aldrei verið eins veik og ég hef heldur aldrei verið með eins veika nemendur. Ég hef samt engar tölulegar upplýsingar um veikindi nemenda minna. Þetta er tilfinning sem ég hef og að sama skapi tilfinning sem foreldrar marga nemenda minna í Reykjavík deila með mér, miðað við áhyggjuraddir þeirra frá því að ég hóf störf í Reykjavík haustið 2018. Síðan ég hóf að kenna í þessum grunnskóla hafa margir samstarfsmenn mínir orðið að hætta vegna heilsuleysis.

Reykjavíkurborg veit mjög vel af þessari myglu. Við starfsmannahópurinn höfum setið marga fundi með hinum ýmsu fulltrúum Reykjavíkurborgar þar sem staðan í okkar skóla er rædd. Skólastjórnendur okkar hafa setið ennþá fleiri myglufundi.

Aðgerðir sem þið hjá borgarstjórninni hafið hingað til kosið að grípa til hafa ekki skilað nægum árangri, enda vita allir, bæði fulltrúar frá borgarstjórninni og við sem þarna vinnum, að það þarf að fara í stærri og meiri framkvæmdir.

Framkvæmdir í húsinu hafa ekki stoppað okkur, við höfum margsinnis sagt við fulltrúa borgarinnar að við förum strax og bráðabirgðahúsnæði er til. Á síðustu tveimur fundum sem við sátum var okkur sagt að bráðabirgðahúsnæðið strandaði á því að það þurfi að teikna það. Svo var okkur sagt að næsti höfuðverkurinn væri að þið vissuð ekki hvar þetta bráðabirgðahúsnæði ætti að standa, þar sem að minnsta kosti tveir aðrir grunnskólar hverfisins, sem og flestir leikskólarnir, þurfa að nýta það á eftir okkur.

Núna, þegar skólaárið hófst, 15. ágúst, fengum við þær upplýsingar að fólkið á vegum borgarinnar væri búið að teikna þetta bráðabirgðahúsnæði og búið að finna því stað.

Samkvæmt planinu sem við höfum heyrt þá eigum við að flytja í það bráðabirgðahúsnæði í ágúst 2025, en fyrst þegar var byrjað að tala um þetta bráðabirgðahúsnæði var talað um nokkur ár sem hafa bæði komið og farið. En þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi vitað í öll þau ár sem ég hef starfað í skólanum, sem og lengur, að það þurfi að flytja starfsemina úr húsinu svo hægt sé að laga það þá var teikning fyrir bráðabirgðahúsnæðið ekki tilbúin fyrr en núna í ágúst, ef ég skil rétt.

Ég veit ekki hvort þú, eða fólkið sem vinnur nær þér en við kennarar Reykjavíkurborgar, séuð búin að gera það sem þið þurfið að gera til þess að tryggja það að bráðabirgðahúsnæðið sé klárt þegar við þurfum að nota það í ágústbyrjun 2025. Hafið þið ekki metnað fyrir ykkar störfum eða viljið þið ekki að heilsa nemenda og starfsmanna skólaReykjavíkur sé tryggð? Hvers vegna þarf undirbúningur á bráðabirgðahúsnæði að taka svona langan tíma? Á meðan veikist fólk. Er ykkur sama um börnin í Reykjavík og undirmenn ykkar?

Myglan í skólahúsnæðinu hefur áhrif á veikindadaga, bæði starfsmanna og nemenda. Eins og ég sagði þá hafa fulltrúar Reykjavíkurborgar sagt okkur að eftir að það verður búið að laga mygluna hjá okkur þurfi að laga mygluvandann í öðrum skólum hverfisins. Í skólanum sem ég starfa við var hlutfall kennara í veikindaleyfi á síðasta skólaári hátt vegna þess að myglan hafði ekki eingöngu áhrif á mig heldur marga fleiri. Það sem er verra er að nemendur geta ekki fengið veikindaleyfi en eru samt líka veikir.

Það er að hluta til á þína ábyrgð, Einar, að skólahúsnæðið sem við störfum í sé heilsusamlegt. Þú berð ekki einn ábyrgð en þú ert borgarstjórinn þannig að þín ábyrgð er mest. Vandinn byrjaði ekki þegar þú tókst við núna fyrr á þessu ári og þess vegna er ábyrgðin ekki þín ein. En já, þið, þú þar á meðal, eruð að gera eitthvað algjörlega vitlaust sem hefur þau áhrif að starfsmenn ykkar sem og nemendur eru veikari en okkur gæti þótt ákjósanlegt.

Þannig að í stað þess að segja að kennarar séu veikir vegna þess að við viljum ekki sinna nemendum okkar eða höfum ekki metnað fyrir starfi okkar skaltu líta þér nær. Við erum mörg veik vegna þess að húsnæðið sem þú skaffar okkur er óheilsusamlegt. Við höfum verið lengi við störf í þessum húsnæðum, sumir lengur en aðrir, þannig að heilsan og ónæmiskerfið er hjá mörgum komið að þrotum. Það á líka við um nemendur Reykjavíkurborgar. Þannig að það er væntanlega kostnaðarsamt að laga þessa leik- og grunnskóla en á móti færðu kannski bæði nemendur og starfsfólk sem er minna veikt og ánægt og hamingjusamt í starfi og námi.

Að lokum vil ég bara láta þig vita það Einar Þorsteinsson að ef kennarar vildu ekki umgangast nemendur þá væru engir kennarar eftir. Við erum ekki í kennslu vegna þess að skólahúsnæðin eru svo heilsusamleg, við erum ekki þarna vegna þess að við fáum mögulega kannski að vinna hluta af vinnunni okkar heima og við erum ekki þarna vegna þess að launaumslagið okkar er svona feitt. Við erum þarna fyrst og síðast vegna barnanna, þau eru það sem við brennum fyrir og án þeirra værum við öll farin. Því miður, vegna heilsuspillandi húsnæðis, hafa sumir þurft að yfirgefa kennslustarfið en það er ekki vegna þess að það fólk hafði ekki metnað fyrir starfi sínu eða nennti ekki að umgangast börn. Vandinn liggur ekki hjá okkur, því ef við gætum lagað myglu í húsum værum við löngu búin að því.

Þannig að þegar þú skoðar næst hlutfall kennara sem eru veikir skaltu líka skoða hlutfall skóla í Reykjavík sem eru með mygluvanda. Mögulega færðu þar eitthvað svar við orsökinni, því orsökin er ekki að við viljum ekki umgangast börnin. Þú sagðir í þessu innslagi þínu þarna á ráðstefnunni að kennarar væru „samt veikari en áður,‟ svo Einar já, það er eitthvað sem þú eða þið hafið gert rangt í borgarstjórninni og það er að leyfa skólahúsnæðum borgarinnar að drabbast niður í myglu. Sýndu metnað og komdu þessu í lag.

Höfundur er kennari við grunnskóla í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×