Hinn 32 ára gamli Neymar spilar í dag fyrir Al Hilal í Sádi-Arabíu og sneri nýverið aftur á völlinn eftir næstum ár frá keppni eftir að hann sleit krossband í hné.
Hann samdi við Al Hilal í ágúst á síðasta ári eftir sex ár hjá París Saint-Germain þar sem hann spilaði með Messi. Þeir spiluðu einnig saman hjá Barcelona þar áður.
Neymar skrifaði undir tveggja ára samning í Sádi-Arabíu og verður því samningslaus í ágúst á næsta ári. Litlar sem engar líkur eru taldar á því að Neymar framlengi samning sinn við Al Hilal.
Nú hefur hann keypt rándýra eign í Bal Harbour-hverfinu á Miami. Þar býr meðal annars Micky Arison, eigandi NBA-liðsins Miami Heat. Þá sagði Neymar fyrr á þessu ári að hann myndi vilja spila með Messi á nýjan leik.
Exclusive: Brazilian soccer star Neymar has purchased a piece of waterfront land in Miami for $26 million amid speculation he may be joining the Major League Soccer team Inter Miami https://t.co/NRnwCyIHaF
— The Wall Street Journal (@WSJ) October 28, 2024
„Vonandi getum við spilað saman á ný. Leo er frábær persóna, það þekkja hann allir og ég tel hann mjög glaðan. Ef hann er glaður er ég glaður,“ sagði Neymar í viðtali við ESPN í mars síðastliðnum.
Fari svo að Neymar myndi ganga í raðir Inter Miami þá yrði hann enn einn fyrrverandi leikmaður Barcelona sem ákveður að venda kvæði sínu í kross og flytja til Bandaríkjanna. Ásamt Messi eru Luis Suárez, Sergio Busquets og Jordi Alba allir á mála hjá félaginu sem er komið með annan fótinn í undanúrslit MLS-deildarinnar í Bandaríkjunum.