Staðsetning skjálftanna var á svipuðum slóðum og við upphaf síðustu kvikuhlaupa og var viðbragð Veðurstofunnar virkjað í stuttan tíma vegna mögulegs kvikuhlaups. Um hálftíma síðar var ljóst að ekki var um kvikuhlaup að ræða.

Skammvinn skjálftahrina
Engin merki um aflögun eða þrýstingsbreytingar sáust á GPS-mælum, ljósleiðara eða í borholum HS-Orku sem væru merki um kvikuhlaup, að sögn Veðurstofunnar. Þegar kvika hefur hlaupið frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina eru þessi mælitæki sögð hafa sýnt skýr merki um það.
Fram kemur í tilkynningu að skjálftavirknin sé mögulega merki um að lítið magn kviku hafi verið á ferð. Skjálftahrinan var skammvinn og mældust rúmlega tuttugu skjálftar um og undir 1,0 að stærð á 3 til 6 kílómetra dýpi á milli klukkan 2 til 3 í nótt.
Mögulega von á eldgosi í lok nóvember
Ein möguleg skýring á skjálftavirkninni í nótt eru kvikuhreyfingar sem stöðvuðust áður en kom til kvikuhlaups, að sögn Veðurstofunnar. Engin merki um breytingar á kvikusöfnuninni undir Svartsengi hafi komið fram á mælum í kjölfar skjálftahrinunnar.
Í samræmi við viðbragðsáætlunum Veðurstofunnar var almannavörnum tilkynnt um skjálftahrinuna í nótt og að sérfræðingar könnuðu möguleika á kvikuhlaupi. Þar sem ekki sáust nein önnur merki um kvikuhlaup var ákveðið að grípa ekki til frekari ráðstafana.
Veðurstofan hefur áður gefið út að reikna megi með að líkur fari að aukast á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Reykjanesskaga í lok nóvember.