Rúben Amorim stýrði Sporting í síðasta sinn á heimavelli þegar liðið tók á móti Manchester City í Meistaradeild Evrópu. Amorim tekur við Man United síðar í þessum mánuði og stuðningsfólk Rauðu djöflanna slefar eflaust yfir tilhugsuninni eftir ótrúlegan 4-1 sigur Sporting í kvöld.

Phil Foden kom gestunum frá Manchester yfir snemma leiks eftir kæruleysi í uppspili heimaliðsins strax á fjórðu mínútu leiksins. Skot hans virtist beint á Franco Israel í marki Sporting en hann stökk á einhvern ótrúlegan hátt frá og boltinn hafnaði í netinu.
Ekki löngu síðar fékk Viktor Gyökeres dauðafæri þegar hann slapp einn gegn Ederson í marki gestanna. Sá sænski reyndi að vippa yfir markvörðinn sem las hann eins og opna bók, staðan enn 0-1.

Það var hins vegar þegar 38 mínútur voru liðnar af leiknum þegar jöfnunarmarkið kom. Þá fékk Gyökeres mun erfiðara færi en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að stinga boltanum í jörðina og þaðan í hornið fjær, óverjandi fyrir Ederson og staðan 1-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn hófst á hreint ótrúlegan hátt. Eftir aðeins tuttugu sekúndur renndi Pedro Gonçalves boltanum á Maximiliano Araújo sem skoraði úr þröngu færi og heimamenn komnir í forystu. Örskömmu síðar fengu Sporting svo vítaspyrnu sem Gyökeres þrumaði í netið.
Staðan óvænt orðin 3-1 og Englandsmeistarar Manchester City í tómu tjóni. Lærisveinar Pep Guardiola fengu líflínu þegar þeir fengu vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendi varnarmanns Sporting. Erling Haaland en hann þrumaði vítaspyrnu sinni í slánna og staðan enn 3-1.

Þegar rétt tæpar tíu mínútur lifðu leiks fengu heimamenn svo sína aðra vítaspyrnu í leiknum. Aftur fór Gyökeres á punktinn. Honum brást ekki bogalistin, þrennan fullkomnuð og Sporting komið 4-1 yfir.
Reyndust það lokatölur leiksins og hefur Man City nú tapað þremur leikjum í röð. Amorim virðist hins vegar skilja við Sporting á gríðarlega góðum stað. Lærisveinar Amorim eru með 10 stig að loknum fjórum umferðum í Meistaradeildinni. Man City er á sama tíma með sjö stig.