Innlent

Græn­lendingar fá Er­ling til að gera Græn­land grænna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erlingur Jens Leifsson er orðinn yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, félags sem annast orkuframkvæmdir fyrir hönd grænlenskra stjórnvalda.
Erlingur Jens Leifsson er orðinn yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, félags sem annast orkuframkvæmdir fyrir hönd grænlenskra stjórnvalda. Sigurjón Ólason

Íslenskur verkfræðingur, sem leitt hefur gerð þriggja nýrra flugbrauta á Grænlandi, hefur verið ráðinn til að stýra mestu virkjanaframkvæmdum í sögu þessa næsta nágrannalands Íslendinga. Hann segir Grænland verða grænna.

Flugvallagerðin telst mesta innviðauppbygging í sögu Grænlands. Þar hefur Erlingur Leifsson undanfarin fimm og hálft ár gegnt lykilhlutverki; sem yfirmaður þeirra framkvæmda sem snúa að öllu láréttu á flugvöllunum, eins og hann orðar það í frétt Stöðvar 2.

„Flugbrautir, flughlöð og akstursbrautir á öllum þremur nýju flugvöllunum sem verið er að byggja á Grænlandi,“ segir Erlingur.

Nýja flugbrautin í Nuuk er 2.200 metra löng. Verktakinn, Munck Gruppen, er búinn að skila verkinu frá sér til flugvallafélags Grænlands.Greenland Airports

Flugbrautin í Nuuk verður opnuð í fullri lengd þann 28. nóvember, eftir fimmtán daga. Áætlanir gera núna ráð fyrir að hinir tveir flugvellirnir, í Ilulissat og Qaqortoq, verði tilbúnir árið 2026.

Erlingur er hins vegar búinn að færa sig yfir í nýtt starf. Hann er orðinn yfirmaður verklegra orkuframkvæmda fyrir hönd grænlenskra stjórnvalda.

Virkjunin sunnan Nuuk verður sú stærsta á Grænlandi og mun þjóna höfuðstaðnum. Virkjunin við Diskóflóa mun þjóna tveimur bæjum við sunnanverðan flóann.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

„Ég er náttúrlega bara ánægður með að mér skuli treyst fyrir því að taka þátt í þessu og vera í þeim hópi sem er að leiða þessi verkefni.“

Erlingur mun stýra gerð 76 megavatta stórvirkjunar við Buksefjorden sunnan Nuuk og annarrar minni virkjunar við Diskóflóa fyrir bæina Aasiaat og Qasigiannguit, upp á 21 megavatt. Umfangið við gerð virkjananna verður ekki mikið minna en við flugvellina.

Stöðvarhús Buksefjord 2 verður 35 kílómetrum ofan við stöðvarhús Buksefjord 1.NunaGreen/Hjalti Freyr Ragnarsson

„Eða stærra. Því að þetta er meira en einn flugvöllur í rauninni, þessar virkjanir. Bara í Buksefjord, hún er töluvert meira heldur en einn flugvöllur,“ segir Erlingur.

Buksefjorden eitt er í dag stærsta virkjun Grænlands, 45 megavött. Buksefjorden tvö verður 76 megavött og með sextán kílómetra aðrennslisgöngum.

Jökullónið Isortuarsuup Tasia. Sextán kílómetra jarðgöng verða grafin úr lóninu niður í annað fjallavatn sem liggur neðar.Erlingur Leifsson

Segja má að sjálfur Grænlandsjökull sé vatnsforðabúrið en vatnið verður leitt úr jökullóni um jarðgöngin í fjallavatn fyrir neðan með stöðvarhúsi á milli.

Stefnt er á forval í desember og útboð í mars næstkomandi en raforkan frá Buksefjord mun fyrst og fremst þjóna höfuðstaðnum Nuuk.

Hafnarbakkinn við Buksefjord. Engir vegir liggja að virkjunarsvæðinu og því þarf að sigla þangað með öll aðföng.Erlingur Leifsson

„Í Nuuk mun hún tryggja það að það þurfi ekki að keyra svona mikið á dísil til að sinna húshitun. Þannig að það verður hægt að nota raforkuna í það.

Það sama gerist náttúrlega við bæina Aasiaat og Qasigiannguit. Það eru líka dísilvélar sem eru keyrðar þar. Það verður hægt að skipta þeim út. 

Það þýðir náttúrlega minni CO2-losun og grænni – grænna Grænland,“ segir Erlingur Jens Leifsson, yfirmaður verklegra framkvæmda NunaGreen, í frétt sem sjá má hér:


Tengdar fréttir

Mestu virkjanaframkvæmdir í sögu Grænlands framundan

Fjármálaráðherrar Danmerkur og Grænlands hafa kynnt samkomulag þess efnis að danska ríkið ábyrgist 95 prósent af lánsfjármögnun tveggja nýrra vatnsaflsvirkjana á Grænlandi upp á sextíu milljarða íslenskra króna. Samkomulagið um lánsábyrgð Dana greiðir leiðina að mestu virkjanaframkvæmdum í sögu þessa næsta nágrannalands Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×