Samfylkingin mælist í nýrri könnun Maskínu með 20,1 prósent en flokkurinn mældist með 20,9 prósent fyrir viku. Viðreisn hækkar um 0,5 prósentustig og mælist nú með 19,9 prósent. Ekki er því marktækur munur á fylgi flokkanna tveggja.
„Það virðist vera sem gáttin milli Samfylkingar og Viðreisnar sé nokkuð opin og áfram heldur sú þróun sem við vorum búin að sjá. Samfylkingin er að trappast niður hægt og rólega. Á sama tíma rís Viðreisn og þessir flokkar ná hvor öðrum. Það hægist aðeins á þessari þróun frá því sem áður var en engu að síður heldur hún áfram og þessir flokkar standa nærri jafnfætis,“ segir Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði.
Viðreisn sækir fylgi frá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki
Marktækur munur er hins vegar á Viðreisn og Sjálfstæðisflokki, sem mælist nú með 13,4 prósenta fylgi, svipað og í síðustu könnun. Ekki er marktækur munur á Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, sem lækkar úr 14,9 prósentum í 12,6.
„Auk þess að það séu gáttir opnar milli Samfylkingarinnar og Viðreisnar getur líka verið að viðleitni Sjálfstæðisflokksins til að stöðva blæðinguna yfir til Miðflokksins, sem þeir hafa gert með því að taka upp mörg áherslumál Miðflokksins sér í lagi hvað varðar aðgerðir gegn aðkomufólki, þá hafi gáttin yfir til Viðreisnar líka opnast frá Sjálfstæðisflokknum. Þannig að Viðreisn sé að njóta bæði fylgis sem er að koma frá Samfylkingu og einnig frá Sjálfstæðisflokki.“
Gengur hvorki né rekur hjá Vinstri grænum
Flokkur fólksins hækkar eilítið milli vikna, nú í 9,2 prósentum og Framsókn mælist enn í rúmum 7 prósentum. Sósíalistar bæta við sig tæpum tveimur prósentustigum, og er nú með 6,3 prósenta fylgi.
Píratar mælast með 5,1 prósent, VG með 3,4, Lýðræðisflokkurinn með 2,1 prósent og Ábyrg framtíð með 0,6%.

„Það gengur hvorki né rekur í þessari kosningabaráttu hjá Vinstri grænum. Kjósendur hafa yfirgefið flokkinn og ætla að reynast tregir til þess að snúa til baka. Svo Vinstri græn eru í raunverulegri lífshættu,“ segir Eiríkur.
Könnunin fór fram dagana 8. til 13. nóvember og voru 1.463 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.