Sport

Ætla að auka fram­lög til afreksstarfs um 650 milljónir

Valur Páll Eiríksson skrifar
HSÍ er á meðal aðildarsambanda ÍSÍ sem ætti að fá hærri fjárúthlutun á næsta ári.
HSÍ er á meðal aðildarsambanda ÍSÍ sem ætti að fá hærri fjárúthlutun á næsta ári. Vísir/Anton Brink

Stefnt er að því að auka umtalsvert á fjárveitingar ríkisins til afreksíþrótta hérlendis. Mennta- og barnamálaráðherra greindi frá þessu á fjármálaráðstefnu ÍSÍ í dag.

Framlög ríkisins í Afrekssjóð hafa staðið í stað í fjögur ár og hátt ákall heyrst úr íþróttahreyfingunni um aukningu undanfarin misseri. Landslið Íslands í hópfimleikum þurfti til að mynda að selja klósettpappír til að komast á Evrópumótið í Bakú í haust. Vésteinn Hafsteinsson, sem var á síðasta ári ráðinn afreksstjóri ÍSÍ, hefur verið hvað háværastur í ákallinu sem virðist nú eiga að bregðast við.

ÍSÍ úthlutar úr sjóðnum til sérsambanda en öll 32 sérsamböndin sem sóttu um úthlutun úr sjóðnum í ár hlutu styrk. HSÍ fékk hæsta upphæð í ár, tæpar 85 milljónir króna, en þar á eftir var Fimleikasamband Íslands sem hlaut tæpar 50 milljónir króna.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála.vísir/Arnar

Í dag renna 800 milljónir frá ríkinu til ÍSÍ en þar af fara 392 milljónir í Afrekssjóð. Sú upphæð hefur verið sú sama frá árinu 2020 og hefur ríkisstjórnin sætt gagnrýni fyrir.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, segir um að ræða aukningu um 650 milljónir króna sem renni alfarið til afreksstarfs. Hækkun á heildarupphæðinni sem ÍSÍ fær frá ríkinu nemur um 80 prósent, úr 800 milljónum í 1.450 milljónir.

Það sé þá útfærsluatriði hversu mikið af milljónunum 650 renni í afrekssjóð. Því fé verði meðal annars skipt milli jöfnunarsjóðs, stuðnings við rekstur aðildarsambanda, stuðning við yngri landslið auk afrekssjóðs.

Sé gert ráð fyrir sömu skiptingu á þeim 650 milljónum sem bætast við og þeim 800 sem fara til ÍSÍ í dag, myndu framlögin í Afrekssjóð því hækka í úr 392 milljónum á ári í tæplega 717 milljónir.

Búið er að klára aðra umræðu um tillöguna í fjárlaganefnd og kveðst Ásmundur bjartsýnn á að málið verði afgreitt á Alþingi.

Nánar verður fjallað um málið í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×