Nýrri stefnu stjórnvalda í landamæramálum er ætlað að efla landamæraeftirlit, auka viðbrögð við skipulagðri brotastarfsemi og tryggja mannúðlega móttöku og brottflutning hælisleitenda. Hún var kynnt á blaðamannafundi dómsmálaráðuneytisins og Ríkislögreglustjóra í gær, en þar var einnig kynnt landsáætlun um samþætta landamærastjórnun.
Meðal markmiða í stefnunni er að koma á fót greiningarmiðstöð við Keflavíkurflugvöll. Svö kölluð móttökumiðstöð sem gegni sams konar hlutverki og er nú í Domus í miðborginni.
„Ég tel afar brýnt að við séum með greiningarmiðstöð í nálægð við flugvöllinn, þannig að einstaklingar í þessari stöðu séu ekki komnir nokkrum klukkutímum eftir að þeir lenda, inn í íslensk samfélag. Heldur staldri þeir við,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra eftir fundinn í gær.
Margra mánaða vinna að baki
Gert væri ráð fyrir að fólk geti dvalið í miðstöðinni í allt að sjö sólarhringa.
„Og að það sé hægt að vísa fólki hratt til baka, ef það á ekki erindi hingað sem erfiði.“
Útfærsla á slíkri stöð liggi ekki fyrir að svo stöddu.

„En ég hafði gert mér vonir um að við gætum opnað greiningarmiðstöð við Keflavíkurflugvöll strax á næsta ári.“
Kom ekki til greina að geyma þetta þangað til eftir kosningar og sjá hvernig færi?
„Eins og ég sagði áðan þá hófst þessi vinna fyrir mörgum mánuðum, það hafa margir komið að henni og Ríkislögreglustjóri hefur leitt þessa vinnu,“ sagði Guðrún.
Ráðherra hafi enga heimild til að kynna nýja stefnu
Þingmaður Pírata segir fundinn, sem boðaður var að frumkvæði dómsmálaráðuneytisins, hafa verið birtingarmynd spillingar.
Guðrún Hafsteinsdóttir er annars vegar í kosningabaráttu en hún er líka dómsmálaráðherra. Er eitthvað óeðlilegt að hún haldi fund með embættismanni á sínu málefnasviði um það sem heyrir undir hana?
„Ef hún þarf að sinna ákveðnum lögbundnum verkefnum, ekkert að því. Þetta er allt annað mál. Hér er verið að tala um stefnu til næsta kjörtímabils. Hún er ekki með heimild til að setja þá stefnu, ekki þegar kosningar eru að koma á okkur,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn segir eðlilegra ef Ríkislögreglustjóri hefði kynnt sína áætlun, án aðkomu ráðherrans.
„Dómsmálaráðherra hefði síðan getað sem frambjóðandi á einhverjum framboðsfundum verið að tala um þessa stefnu. En það þær væru að gera það saman, það er bara alfgjör óþarfi.“