Eftir sigur Sveindísar Jane Jónsdóttur og félaga í Wolfsburg í gær var ljóst að Bayern Munchen þurfti sigur til að halda í við Wolfsburg sem var með fimm stiga forskot á toppnum fyrir leik Bæjara og Jena í dag.
Það dró til tíðinda á 19. mínútu þegar enska landsliðskonan Georgia Stanway gaf boltann laglega fyrir og beint á höfuðið á Glódísi Perlu sem átti þrususkalla í netið. Þetta er fyrsta mark Glódísar á leiktíðinni.
Tíu mínútum síðar tvöfaldaði þýska landsliðskonan Klara Buhl forskot Bayern og staðan í hálfleik var 2-0. Framherjinn Lea Schuller skoraði þriðja markið á 80. mínútu, Jovana Damjanovic skoraði fjórða markið skömmu síðar og Schuller innsiglaði 5-0 sigur Bayern undir lokin.
Bayern er með 23 stig eftir tíu leiki, jafnt Eintracht Frankfurt í 2. - 3. sæti og er tveimur stigum á eftir toppliði Wolfsburg.
Mark Glódísar og öll mörk liðs Bayern má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.