Skoðun

Kjósum kratana í þágu dýravelferðar

Árni Stefán Árnason skrifar

Ekki er liðin vika frá því að ég skoraði á stjórnmálaflokkana, í skoðanagrein hér, að setja velferð dýra á meðal oddamála fyrir komandi kosningar. Þeir hafa ekki þorað því utan eins núna.

Ég átti ekki nokkra von á viðbrögðum þó ég hafi rökstutt það með því að vísan í elju Tryggva Gunnarssonar þingmanns um þar síðustu aldamót. Tryggvi kom dýravernd bókstaflega í gang á Íslandi á opinberum vettvangi. Fyrstu íslensku dýraverndarlögin má heita að séu verk hans og hann kallaði einmitt konur til verka, þær hefðu sanna tilfinningu fyrir dýravernd.

Ég nærri hopaði hæð mína í lofti þegar ég opna netið eftir hádegi í dag og sé að eðalkratinn Þórunn Sveinbjarnardóttir frambjóðandi hefur skrifað skoðanagrein á visir.is um mikilvægi velferðar dýra. Í greininni drepur hún á nokkrum mikilvægum atriðum sem komandi þing má til með að taka á því dýravernd á Íslandi er á brauðfótum.

Áhugaleysi síðustu ríkisstjórnar algert og eftirlit með eftirlitsaðilanum Matvælastofnun ekkert. Ég leyfi mér að segja að VG séu nú að verða fyrir barðinu á því og ekki er ris íhaldsins og framsóknar hátt, sem betur fer.

Svo langt gekk sú slaka stjórn, óvinveitt dýravernd, að hún var samþykk því að það væri í lagi að murka líf úr hvölum byggt á lögum sem ættu með réttu heima á Grund. Einkum hefur þó einn íhaldsframbjóðandi hamrað á þeirri rökleysu og ekki er aðstoðarmaður forsætisráðherra í Matvælaráðuneytinu skárri. Að sama skapi setti hún engar hindranir á þjáningar blóðmera svo fátt eitt sé nefnt. - Ekki nokkur samúð með dýrum.

Ég hef skrifað það áður að mér dytti ekki í hug að fara á kjörstað ef engin stjórnmálaflokkur nennir að ræða velferð dýra fyrir komandi kosningar. Það hefur einfaldlega verið prinsipp mál hjá mér. - Á því verður breyting nú. Ég mun berjast fyrir því að Þórunn nái þingsæti í mínu kjördæmi, með því að fara á kjörstað.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×