Körfubolti

Höttur á Egils­stöðum eða „hawk tuah“?

Sindri Sverrisson skrifar
Courvoisier McCauley í leik með Hetti áður en hann hætti hjá félaginu. Framburður hans á nafni félagsins þótti minna á fræga „hawk tuah“-svarið hennar Haliey Welch í Youtube-viðtali.
Courvoisier McCauley í leik með Hetti áður en hann hætti hjá félaginu. Framburður hans á nafni félagsins þótti minna á fræga „hawk tuah“-svarið hennar Haliey Welch í Youtube-viðtali. vísir/Anton og Getty/Tayfun Coskun

Courvoisier McCauley, sem nú er hættur sem leikmaður Hattar, kenndi sérfræðingum Bónus Körfuboltakvölds að bera fram nafnið hans. Þeir höfðu þó meira gaman af því hvernig McCauley bar fram nafn Hattar.

Stefán Árni Pálsson, stjórnandi þáttarins, fékk erlenda leikmenn í Bónus-deildinni til að senda inn myndbönd og kenna fólki að bera fram nöfn þeirra almennilega. 

Þannig kom meðal annars í ljós að Dedrick Basile, sem spilað hefur á Íslandi í fjögur ár, hefur verið kallaður röngu nafni allan þennan tíma.

Stefán Árni fékk einnig svar frá Courvoisier McCauley, rétt áður en ákvörðun var tekin um að McCauley myndi yfirgefa Hött. Hann birti svarið í Körfuboltakvöldi síðasta föstudag en það sem fékk Stefán til að skella upp úr, og þar með sérfræðinga hans, Pavel Ermolinskij og Helga Má Magnússon, var hvernig McCauley sagði „Höttur“.

Þótti það óneitanlega minna á „hawk tuah“ frasann sem varð óvænt að hálfgerðu æði á samfélagsmiðlum fyrr á þessu ári, sem svar bandarísku konunnar Haliey Welch við því hvað ærði karlmenn í svefnherberginu.

Sjón er sögu ríkari en brot úr þættinum má sjá hér að neðan. 

Klippa: Höttur á Egilsstöðum eða „hawk tuah“?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×