Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá fyrsta flugtakið en nítján mánuðir eru frá því ráðamenn Icelandair kynntu þá tímamótaákvörðun að velja Airbus. Þetta verður í fyrsta sinn sem Icelandair og forverar þess fá nýja þotu frá öðrum framleiðanda en Boeing.
Þotan sem markar þáttaskilin er af gerðinni Airbus A321 LR, eða long range, og tekur 187 farþega í sæti. Stefnt er að því að hún hefji áætlunarflug á leiðum Icelandair þann 10. desember; morgunflug til Stokkshólms og síðdegisflug til Kaupmannahafnar.
Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa félagsins, verður þota númer tvö afhent í byrjun næsta árs og verða þær orðnar fjórar í flotanum fyrir næsta sumar. Fyrir sumarið 2026 er svo á von á þremur til viðbótar en þær leysa Boeing 757-þoturnar af hólmi.

Þessar sjö þotur verða teknar á leigu tímabundið þar til félagið fær langdrægustu útgáfuna, A321 XLR, sem stendur fyrir extra long range, en hún er eins í útliti. Icelandair er búið að semja um kaup á allt að 25 þotum þeirrar gerðar og bætast þær fyrstu inn í flotann árið 2029.