Þar sem allt gengur út á að vera með ofhlaðna dagskrá. Og að það sem ekki er skráð í dagatalið, kemst ekki að.
Hver einasta mínúta er hreinlega bókuð í hverri viku.
Hádegismatur? Jeminn, nei, kemst ekki, er á fundi…
Ég er algjörlega á hvolfi næstu daga, svo mikið bókað.
En hversu töff er þetta?
Og er þetta mögulega bakslag?
Eru þetta kannski línurnar sem stjórnendur vinnustaðarins eru að leggja? Alltaf sjálfir með alla daga uppbókaða.
Og eftir höfðinu dansa limirnir og allt það…
Töff eða óskynsamlegt?
Í viðtali Atvinnulífsins við Þórhildi Eddu Gunnarsdóttur í vikunni, framkvæmdastjóra Sweeply, sagði Þórhildur að hún hefði það sem mottó að segjast aldrei vera mjög upptekin.
„Ég trúi því einfaldlega að ef við erum alltaf að segja að við séum ótrúlega upptekin, þá séum við að hugsa svo mikið um það að við náum ekki að fókusa á að við séum einfaldlega að gera fullt af skemmtilegum hlutum með því að vera ekkert að hugsa um að við séum ótrúlega upptekin,“ sagði Þórhildur og bætti því við að reynslan af þessu mottói væri mjög góð:
,Mín reynsla er sú að bara með því að vera ekkert að hugsa um að vera ótrúlega upptekin, skapist fullt af plássi í lífinu til að gera enn fleiri skemmtilega hluti.“
Greinahöfundur FastCompany tekur undir þessi orð í nýlegri grein, en þar mælir hann með því að vinnustaðir fari að sporna við þessari þróun, áður en allt verður komið í óefni.
Því það að halda áfram að vera svona upptekin í því að vera upptekin, er á endanum engum til góðs; Hvorki vinnustaðnum né starfsfólkinu.
Mjög líklega er skilvirknin til dæmis ekki upp á sitt besta, ef kapphlaupið við að vera alltaf svona upptekin er svona mikið.
Sömuleiðis á sá tími að vera liðinn þar sem starfsfólk upplifir að það eigi að vera upptekið við að vinna hverja einustu mínútu yfir vinnudaginn. Eitthvað sem löngu er orðið þekkt að skilar ekki bestum árangri.
Þannig að nú er spurt:
- Hvernig er staðan á þínum vinnustað?
- Ríkir dagatalsmenning þar? Ef já; Hjá öllum? Hjá sumum?
- Ert þú hluti af dagatals-menningunni?
- Eða þekkir þú einhvern sem er það?
- En yfirmennirnir á vinnustaðnum?
- Finnst þér töff að vera alltaf mjög upptekin?
- Eða er það kannski meira töff að segjast aldrei vera mjög upptekin?