Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Jack Smith, sérstakur saksóknari, hafi óskað eftir því að dómari vísaði málunum frá, þar sem það hefði löngum verið túlkun dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna að ákæra og saksókn á hendur sitjandi forseta gengi í berhögg við stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Þegar var búið að ákæra Trump í tveimur málum. Hann tekur við embætti forseta 20. janúar næstkomandi, eftir að hafa sigrað demókratann Kamölu Harris í forsetakosningum í upphafi nóvember.
Frávísun með fyrirvara
Smith var skipaður af Merrick Garland, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Joes Biden, árið 2022 til að hafa yfirumsjón með tveimur málum á hendur Trump. Annað þeirra sneri að meintum tilraunum hans til að snúa við úrslitum kosninganna 2020, sem Trump tapaði gegn Biden, og hins vegar að hafa farið ógætilega með háleynileg gögn eftir að hann lét af embætti í upphafi árs 2021.
Smith óskaði eftir frávísun við dómara, en þó með fyrirvara um að hægt yrði að taka málin aftur upp síðar. Dómarinn þarf að samþykkja frávísunina svo hún teljist lögformlega gild.
„Innantóm lögleysa“
Sjálfur hefur Trump sagt, eftir þessar fregnir, að málin hafi verið pólitískar nornaveiðar á hendur honum. Um hafi verið að ræða „innantóma lögleysu.“
„Og lágpunktur í sögu lands okkar, að svona lagað skuli hafa gerst. Þrátt fyrir það þá stóð ég þetta af mér, þótt líkurnar væru ekki með mér í liði,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðil sinn, Truth Social í kvöld.
Undir þetta hefur J.D. Vance, verðandi varaforseti Trumps, tekið, og sagt að ef Trump hefði tapað kosningunum fyrr í mánuðinum kunni vel að vera að hann hefði varið því sem eftir væri af ævinni í fangelsi.