Skoðun

Skoðun mín á alþingis­kosningum 2024

Valgerður Bára Bárðardóttir skrifar

Ég er stolt af því að búa í samfélagi sem krefst breytinga, samfélagi sem vill betri velferð, jafnrétti og frelsi fyrir alla – líka fyrir þá sem hafa ekki sömu tækifæri og hinn almenni borgari.

Ég er ekki sérfræðingur í pólitík, en sem heilbrigðisstarfsmaður í geðheilbrigðisþjónustu og móðir barns með fötlun skipta málefni velferðar- og menntakerfisins mig djúpt. Ég þrái að búa í samfélagi þar sem sonur minn fær jöfn tækifæri til menntunar og þjónustu sem hentar hans þörfum. Ég vil tryggja að hann verði ekki jaðarsettur, heldur fái að blómstra og verða samþykktur eins og hann er.

Ég vil samfélag sem gerir öllum kleift að mennta sig, eignast heimili og lifa af launum sínum. Eftir 6 ára háskólanám og 13 ára starfsreynslu ætti það að vera raunhæft – en það er ekki staðan í dag.

Ég vil náungakærleika. Ég vil samfélag sem hugsar um börnin og ungmennin, heilbrigðiskerfið og starfsfólkið sem heldur því uppi. Ég vil samfélag þar sem allir eru jafnir, óháð uppruna, stöðu eða bakgrunni.

Við berum ábyrgð á því hvernig við tölum og hugsum um innflytjendur. Samfélagið okkar á að vera fyrir alla. Börn hælisleitenda eiga rétt á lífi án jaðarsetningar, rétt eins og börnin mín. Fjölmiðlar verða að axla ábyrgð og fjalla um þessi mál á uppbyggilegan hátt.

Ég veit að við höfum ólíkar skoðanir, en ég trúi því að allir – sama úr hvaða flokki þeir koma – vilji það sama í grunninn: samfélag þar sem jöfnuður og kærleikur eru í forgrunni.

Takk fyrir mig.

Valgerður Bára, móðir fjögurra barna og geðhjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×