Fréttastofa BBC greinir frá.
ins og greint hefur verið frá skrifaði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, undir lög á þessu ári sem snúast um það að verði TikTok ekki selt af kínverskum eigendum þess fyrir 19. janúar næstkomandi, verði samfélagsmiðillinn bannaður í Bandaríkjunum.
Frumvarpið flaug í gegnum báðar deildir Bandaríkjaþings með miklum stuðningi frá þingmönnum beggja flokka. TikTok, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance, kærði lögin á sínum tíma.
TikTok hélt því fram að það að loka fyrir miðilinn í landinu myndi hamla tjáningarfrelsi Bandaríkjamanna. Dómurinn féllst ekki á það og sagði lögin vera góð og gild og því standa. 170 milljón manns nota TikTok í Bandaríkjunum.
TikTok segir þetta þó ekki vera endastöð fyrir miðilinn og ætla forsvarsmenn samfélagsmiðilsins að halda áfram að leita leiða til að koma í veg fyrir að lokað verði fyrir miðilinn.
Talsmaður TikTok sagði í yfirlýsingu að þau hygðust áfrýja málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Einnig er vonast til þess að kjör Donald Trump í forsetaembættið muni koma til með að bjarga veru miðilsins í Bandaríkjunum.
Prófessor í lögfræði við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum telur ólíklegt að Hæstiréttur taki málið fyrir.
Trump reyndi á sínum tíma að banna TikTok árið 2020 án árangurs en tók fram í kosningabaráttunni í ár að hann myndi ekki leyfa banninu gegn miðlinum að taka gildi. Trump verður settur í embætti 20. janúar, einum degi eftir að TikTok á að vera lokað að því gefnu að ekki verður búið að selja hlut kínverskra fjárfesta í fyrirtækinu fyrir það.