Valsarar kynntu nýjan mann til leiks í 88-77 sigri gegn Grindavík í VÍS-bikarnum í gær því Svíinn hávaxni Adam Ramstedt er mættur á Hlíðarenda, og hann skoraði 13 stig og tók 9 fráköst.
Spennandi verður að sjá Ramstedt með Val í Bónus-deildinni en þar hafa Valsmenn aðeins unnið þrjá leiki til til þessa, og tapað síðustu leikjum gegn Haukum og ÍR. Dagskráin er strembin hjá Val því í næstu leikjum spilar liðið við Grindavík, Tindastól og Stjörnuna.
Risastórt verkefni fyrir Val
„Við erum með tvo leikmenn í liðinu, Badmus og Kristin Pálsson, sem hafa átt alveg stórkostlega leiki í vetur, en samt sem áður eru þetta bara þrír sigrar. Það er risastórt verkefni fram undan hjá Val,“ sagði Teitur Örlygsson í Körfuboltakvöldi á föstudaginn.
Þá var enn beðið eftir því að Valsmenn kynntu nýjan leikmann til leiks, sem nú er komið í ljós að er Ramstedt, en Teitur sagði fólki að vera ekki að afskrifa Val.
„Þeir eiga eftir að bæta við leikmönnum, vonandi kemur Kristó [Acox] sterkur til baka. Þá horfum við á liðið og sjáum að þetta er einhver mjög sterk vél,“ sagði Teitur og þeir Hermann Hauksson voru sammála um að ekkert lið myndi vilja mæta Vals þegar kæmi í úrslitakeppnina. Umræðuna má sjá hér að neðan.
Stefán Árni Pálsson, stjórnandi þáttarins, hafði sínar efasemdir um að Valur kæmist hreinlega í úrslitakeppnina, vegna þess hve sterk Bónus-deildin væri í vetur.
„Núna reynir rosalega mikið á Finn“
Valsliðið hefur þurft að glíma við ýmislegt á leiktíðinni en fyrir tveimur umferðum sneri þjálfarinn sigursæli Finnur Freyr Stefánsson þó aftur úr veikindaleyfi.
„Núna reynir rosalega mikið á Finn,“ sagði Teitur og hélt áfram: „Finnur er í stöðu sem hann hefur aldrei verið í sem þjálfari. Það eru þjálfarar sem þekkja það alveg að tapa mörgum leikjum í röð, og að sjálfstraustið sé í molum. Ég held að Finnur hafi aldrei átt við það. Hann hefur alltaf verið í toppbaráttunni með mjög góð lið í höndunum.“
„Má segja að Finnur sé Pep Guardiola íslensks körfubolta? Að ganga í gegnum nákvæmlega sömu tíma núna,“ grínaðist Stefán Árni þá en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.