Roebuck, sem er 25 ára gömul, greindi frá því í mars að hún hefði fengið heilablóðfall en að það hefði ekki valdið varanlegum skemmdum á heila eða sjón hennar.
Það hefur þó tekið sinn tíma fyrir Roebuck að snúa aftur til keppni en það gerði hún og var nálægt því að halda markinu hreinu, í 4-1 sigri með Barcelona gegn Real Betis á laugardag.
Roebuck fór til Barcelona frá Manchester City í júní, þegar samningur hennar við enska félagið rann út, eftir að ljóst var að hún myndi geta spilað fótbolta að nýju. Leikurinn um helgina var því hennar fyrsti leikur fyrir Barcelona.
„303 dögum síðar. Markmiðið var alltaf að spila aftur íþróttina sem ég elska,“ skrifaði Roebuck á Instagram.
Lionesses and Barcelona keeper Ellie Roebuck made her first appearance in 19 months after recovering from a stroke ❤#BBCFootball pic.twitter.com/kvxCds1Lk2
— BBC Sport (@BBCSport) December 9, 2024
„Stundum virtist það ómögulegt en það er algjör draumur að gera það fyrir Barcelona. Þetta hefur verið ferðalag. Ég vil þakka öllum sem studdu mig á leiðinni. Ekkert mun toppa þessa tilfinningu,“ skrifaði Roebuck.
Hún lék yfir 100 leiki fyrir City og á að baki ellefu A-landsleiki. Hún var til að mynda í enska landsliðshópnum sem varð Evrópumeistari sumarið 2022 og gerir nú tilkall til þess að komast á EM í Sviss næsta sumar.
Barcelona hefur unnið alla tólf deildarleiki sína á Spáni til þessa. Liðið hefur unnið Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð og sækir Hammarby heim til Svíþjóðar á fimmtudaginn.