Stefán Teitur hóf leikinn á varamannabekk Preston í dag en liðið var um miðja deild fyrir leikinn gegn Leeds. Gestirnir voru hins vegar í 2. sæti og setja stefnuna á sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Brad Potts kom heimaliði Preston í 1-0 um miðjan fyrri hálfleikinn og þannig var staðan að loknum fyrri hálfleik. Stefán Teitur kom inn af bekknum í hálfleik hjá Preston og þegar allt stefndi í góðan sigur heimamanna tókst liði Leeds að jafna metin í uppbótartíma þegar Jack Whatmough skoraði sjálfsmark. Grátleg niðurstaða fyrir heimamenn sem urðu að sætta sig við 1-1 jafntefli.
Arnór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Blackburn sem vann 2-0 sigur á Luton Town á heimavelli en Arnór er að snúa til baka eftir erfið meiðsli og veikindi síðustu mánuði. Þá var Guðlaugur Victor Pálsson óntaður varamaður hjá Plymouth sem tapaði 2-0 gegn toppliði Sheffield United á útivelli.
Gott gengi Willums og félaga heldur áfram
Í League One-deildinni var Willum Þór Willumsson í byrjunarliði Birmingham sem mætti liði Bristol Rovers á heimavelli. Birmingham vann góðan 2-0 sigur eftir tvö mörk í fyrri hálfleiknum en Willum Þór lék allan leikinn í liði heimamanna.
Birmingham er í 2. sæti deildarinnar og er einu stigi á eftir liði Wycombe en á leik til góða. Alfons Sampsted var ekki í leikmannahópi Birmingham í dag. Þá var Jason Daði Svanþórsson í byrjunarliði Grimsby sem mætti Crewe á heimavelli. Jason Daði var tekinn af velli á 80. mínútu í 2-0 tapi en Grimsby er í 7. sæti League Two-deildarinnar og í baráttu um sæti í deildinni fyrir ofan á næstu leiktíð.