Marcel Daum, aðstoðarþjálfari Alonso hjá Leverkusen, birti mynd af eftirmynd skjaldarins sem þýskir meistarar lofta á Instagram í vikunni og skrifaði við: „Takk stjóri!“
Bild greinir frá því að Alonso hafi gefið öllum meðlimum þjálfarateymis síns slíkan grip í aðdraganda 2-0 sigurs Leverkusen á Augsburg um helgina. Leverkusen varð þýskur meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins síðasta vor og vann að auki þýska bikarinn.

Greint er frá því að Alonso hafi greitt sex þúsund evrur fyrir hvern verðlaunagrip úr eigin vasa. Heildarkostnaðurinn hafi numið á bilinu 60 til 70 þúsund evrur, eða á bilinu níu til tíu milljónir íslenskra króna.
„Ég á eftirmynd af öllum bikurum sem ég hef unnið heima. Núna á ég eina af þessum bikar. Þetta er góð minning fyrir alla. Þess vegna gerði ég þetta,“ hefur Bild eftir Alonso.
Bayer Leverkusen situr í öðru sæti þýsku deildarinnar með 29 stig eftir 14 umferðir, fjórum stigum frá toppliði Bayern Munchen.