„Við erum komin á góðan stað í dag en mér finnst ólíklegt að við fáum nýjan þjálfara í jólagjöf. Þetta er ákveðið ferli, sem við erum að klára innanhúss, um það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur og hvernig manneskju við erum að leita að,“ hefur mbl.is eftir Þorvaldi.
Þorvaldur býst við að tíðinda verði að vænta af þjálfaramálum eftir tvær til þrjár vikur. Ummæli hans ríma við það sem hann sagði við Vísi fyrir rúmri viku þegar hann bjóst síður við að ráða þjálfara fyrir jól.
Gera má ráð fyrir að umsækjendur og mögulegir kostir verði teknir í viðtal milli jóla og nýárs eða snemma á nýju ári. Þrír til fjórir aðilar verða að líkindum fengnir í viðtal.
Þorvaldur sagði við Vísi eftir uppsögn Åge Hareide að hann hygðist heldur ráða íslenskan þjálfara en erlendan. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, og Freyr Alexandersson, fráfarandi þjálfari Kortrijk, hafa helst verið nefndir til sögunnar.
Gera má ráð fyrir að Arnar verði tekinn í viðtal eftir Evrópuleik Víkings við LASK ytra í kvöld, að KSÍ hafi af virðingu við hann og Víkingsliðið, ákveðið að bíða þar til deildarkeppni Sambandsdeildarinnar væri afstaðin.
Staða Freys breyttist óvænt í vikunni þegar honum var sagt upp störfum hjá Kortrijk. Hann er því skyndilega laus allra mála.
Norðmaðurinn Per Matthias Högmo og Svíinn Janne Anderson hafa einnig verið nefndir til sögunnar sem kostir sem KSÍ séu með til skoðunar.
Fyrsta verkefni nýs þjálfara, hvers svo sem hann verður, er umspil Þjóðadeildarinnar í mars þar sem Ísland mætir Kósóvó heima (heimaleikurinn verður að vísu leikinn erlendis vegna framkvæmda við Laugardalsvöll) og heiman. Sigurliðið keppir í B-deild en tapliðið í C-deild.