Samkvæmt TASS sagði Pútín á blaðamannafundi í morgun að sérfræðingar á Vesturlöndum mættu velja skotmarkið.
Sérstaklega var hann að tala um eldflaug sem kallast Oreshnik en þar er um að ræða meðaldræga skotflaug sem borið getur nokkra sjálfstæða sprengjuodda. Eldflaug af þessari gerð var í fyrsta sinn skotið að Úkraínu í síðasta mánuði.
Sjá einnig: Segir notkun eldflaugarinnar fela í sér stigmögnun átaka
Skotflaugar af þessari gerð virka þannig að þeim er skotið hátt á loft og þar sleppa þær mörgum sprengjuoddum sem eru hannaðir til að falla til jarðar á gífurlegum hraða og hæfa skotmörk þar.
Rússar segja Oreshnik-eldflaugina nýja af nálinni en sérfræðingar hafa dregið það í efa og segja að breytta gerð af eldri eldflaugum sé um að ræða.
Um vestræna sérfræðinga sem efa getu Oreshnik sagði Pútín að þeir mættu velja skotmarkið í „tæknilegu einvígi“. Þar gætu þeir komið loft- og eldflaugavarnarkerfum fyrir og reyna að stöðva skotflaugina.
„Við sjáum hvað gerist. Við erum tilbúnir í slíka tilraun,“ sagði Pútín, samkvæmt TASS fréttaveitunni.
Eldflaugar af þessari gerð geta borið kjarnorkuvopn en það á við um margar af þeim gerðum eldflauga, bæði stýriflaugar og skotflaugar, sem Rússar hafa skotið að borgum Úkraínu undanfarin þrjú ár.
Sjá einnig: Tæplega hundrað eldflaugum og tvö hundruð drónum skotið að Úkraínu
Oreshnik eru einnig sagðar mjög dýrar í framleiðslu og telja Bandaríkjamenn að Rússar eigi tiltölulega fáar eldflaugar. Þær eru einnig sagðar bera minni sprengjuodda en aðrar eldflaugar sem Rússar skjóta reglulega að skotmörkum í Úkraínu.