Myrkvar af þessu tagi sjást aðeins frá afmörkuðu svæði á jörðinni. Síðast gekk tunglið fyrir Mars frá Íslandi séð 5. desember árið 2020, að því er Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari, skrifar á vefsíðunni Iceland at Night. Gísli Már Árnason, kollegi hans og hinn umsjónarmaður vefsins, náði meðfylgjandi mynd af myrkvanum úr Kópavogi á miðvikudagsmorgun.
Tunglið gengur aftur fyrir Mars frá Íslandi séð að kvöldi 9. febrúar. Sá myrkvi hefst klukkan 18:30 og lýkur honum klukkan 19:28.
Þrátt fyrir að Mars verði á lofti allar myrkurstundir um miðjan janúar, í svonefndri gagnstöðu, er þetta ekki heppilegur tími til þess að skoða rauðu reikistjörnuna. Svo vill nefnilega til að reikistjarnan er núna fjarri jörðinni í sólkerfinu og því lítil að sjá í áhugamannasjónaukum.
Aðstæður verða ákjósanlegri í september 2035 en þá verður Mars næst jörðu, um 56,9 milljón kílómetra í burtu, um tvöfalt nær en hún er nú.