Þetta var ákveðið þegar suðurkóreska þingið kom saman í fyrr í dag. Alls greiddu 192 þingmenn atkvæði með að ákæra Han, en 151 hið minnsta þurfti til að ákæran næði fram að ganga.
Forsætisráðherrann Han Duck-soo tók við stöðu starfandi forseta þegar forsetinn Yoon var ákærður til embættismissis í byrjun mánaðar í kjölfar ákvörðunar sinnar um að koma á herlögum í landinu.
Í frétt BBC segir að Han hafi verið ætlað að leiða landið í gegnum það pólitíska öngþveiti sem hefur ríkt í landinu síðustu vikurnar. Stjórnarandstæðingar sökuðu hann hins vegar að um að neita því að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að hægt væri að framfylgja ákæruferlinu á hendur Yoon með fullnægjandi hætti.
Stjórnarþingmenn mótmæltu harðlega
Mikið uppnám varð í suðurkóreska þinginu í morgun og mótmæltu stjórnarþingmenn harðlega þegar þingforsetinn Woo Won-shik tilkynnti að einungis þyrfti atkvæði 151 þingmanna til að samþykkja ákæru á hendur Han.
Þegar Yoon var ákærður til embættismissis þurfti atkvæði tvö hundruð þingmanna, en ákvörðun þingforsetans í morgun þýddi að engir stjórnarþingmenn þurftu að greiða atkvæði með ákæru til að málið næði fram að ganga.

Stjórnarþingmenn létu ýmis orð falla á þinginu í morgun og sögðu að ógilda ætti atkvæðagreiðsluna og sökuðu þingforsetann um valdníðslu og hvöttu hann til að segja af sér. Flestir stjórnarþingmenn sniðgengu atkvæðagreiðsluna.
Han verður nú leystur frá störfum af þinginu, en líkt og í tilfelli Yoon þá þarf stjórnlagadómstóll landsins að staðfesta ákæruna og hefur hann 180 daga til að taka ákvörðun í málinu.
Kom í veg fyrir skipun dómara
Stjórnarandstöðuþingmenn lögðu fyrst fram tillögu í gær um að ákæra skyldi Han eftir að hann stöðvaði skipun þriggja dómara sem þingið hafði samþykkt að skyldu taka mál Yoon fyrir. Níu dómarar eiga alla jafnan sæti í stjórnlagadómstól Suður-Kóreu og þurfa að sex dómarar hið minnsta að staðfesta ákæru á hendur Yoon til að hún nái fram að ganga. Sem stendur eiga hins vegar bara sex dómarar sæti í dómstólnum sem þýðir að einungis einn þeirra gæti lagst gegn ákærunni til að koma í veg fyrir að Yoon yrði hrakinn úr embætti. Vonuðust stjórnarandstöðuþingmenn til að með fullskipa dóminn myndi það auka líkur á að Yoon yrði ákærður til embættismissis.
Fjármálaráðherrann Choi Sang-mok mun nú taka við af Han sem starfandi forseti landsins,