Þýskir miðlar greina frá þessu í dag og tala um sjokk fyrir Alfreð, en vinstri skyttan Sebastian Heymann og línumaðurinn Jannik Kohlbacher hafa neyðst til að draga sig úr hópnum hans vegna meiðsla.
Þeir bætast á lista með sterkum leikmönnum sem missa af HM vegna meiðsla, en á þeim lista eru einnig menn eins og Dika Mem, Ómar Ingi Magnússon og Félix Claar.
Báðir eru Þjóðverjarnir leikmenn Rhein-Neckar Löwen og missir Heymann af því sem átti að verða hans fyrsta heimsmeistaramót, eftir að hafa meiðst í fæti í leik við Flensburg um miðjan desember, en Kohlbacher þarf að gangast undir aðgerð vegna meiðsla í olnboga.
Í þeirra stað hefur Alfreð kallað á Tim Zechel úr Magdeburg og Lukas Stutzke úr Hannover-Burgdorf.
Spila við Brasilíu þegar Ísland mætir Svíþjóð
Íslenska landsliðið kom saman til æfinga í Víkinni í dag en þýski landsliðshópurinn kemur saman til æfinga í Hamburg á morgun.
Þjóðverjar spila svo vináttulandsleiki 9. og 11. janúar, við Brasilíumenn, sömu daga og Ísland spilar við Svíþjóð.
Á HM eru Þjóðverjar í Evrópuriðli með Póllandi, Sviss og Tékklandi, og spila þeir í Herning í Danmörku. Efstu þrjú liðin spila svo í millriðli með þremur liðum úr B-riðli (Danmörk, Ítalía, Alsír, Túnis), einnig í Herning.
Ljóst er að Ísland og Þýskaland geta ekki mæst á HM nema að bæði lið komist í úrslitaleikinn eða leikinn um 3. sætið.