Sjö slösuðust þegar Matthew Livelsberger, starfandi sérsveitarmaður í bandaríska hernum, sprengdi sig í loft upp fyrir utan hótelið á nýársdag. Livelsberger hafði margsinnis verið heiðraður af hernum fyrir störf sín en hann var í sérsveitum sem á ensku kallast „Green Berets“ og starfa að mestu við að þjálfa upp bandamenn Bandaríkjanna á erlendri grundu og sporna gegn hryðjuverkastarfsemi.
Skilríki Livelsberger fundust í bílnum en vegna þess hve illa brunnið líkið er hefur ekki verið staðfest með lífsýnum, fingraförum eða sambærilegum aðferðum að um hann sé að ræða. Rannsakendur segja það þó mjög líklegt, samkvæmt frétt Washington Post, og er það meðal annars byggt á sýnilegum húðflúrum á líkinu og skilríkjunum sem fundust.
Samkvæmt AP fréttaveitunni hafði Livelsberger verið í hernum frá 2006 og þjónað víðsvegar um heiminn. Hann hafði að minnsta kosti tvisvar sinnum fengið bronsstjörnuna svokölluðu og í annað sinn fyrir að sína mikið hugrekki í átökum, auk annarra orða frá hernum.
Hann mun hafa verið í fríi frá hernum um áramótin.
Fram kom á blaðamannafundi í dag að skotsár fannst á höfði mannsins og fannst einni skammbyssa við fætur hans í bílnum. Er þess vegna talið að hann hafi skotið sig áður en sprengjan sprakk.
Önnur byssa fannst í bílnum en einnig flugeldar, skilríki, sími og aðrir munir.

Þá kom einnig fram að skaðinn vegna sprengingarinnar hefði að mestu átt sér stað inn í bílnum sjálfum. Krafturinn frá sprengjunni hafi leitað upp á við en ekki í átt að dyrum hótelsins þar rétt hjá.
Sprengjan var gerð úr flugeldum og gaskútum en AP hefur eftir einum af rannsakendum í málinu, sérfræðingi frá löggæslustofnuninni ATF, sem heldur utan um málefni áfengis, tóbaks, skotvopna og sprengiefna, að miðað við reynslu Livelsberger sé undarlegt hversu vanþróuð bílsprengjan hafi í raun verið.