Danmörk og Frakkland voru í milliriðli með Íslandi á mótinu og mættust í lokaumferðinni. Ef Danmörk hefði unnið leikinn, eftir að hafa verið 17-12 yfir í hálfleik, hefði Ísland komist í undanúrslit.
Frakkar höfðu hins vegar að lokum betur, 30-29, og komust í undanúrslitin með Dönum sem voru þegar öruggir um sæti þar.
Þessu áttu Íslendingar erfitt með að kyngja og má því miður ætla að einhver þeirra ljótu skilaboða sem Jacobsen fékk eftir leikinn hafi komið frá Íslandi.
„Eftir tapið gegn Frökkum árið 2022, sem bitnaði á Íslandi, fékk ég mörg lítt falleg skilaboð. Við skulum bara orða það þannig,“ sagði Jacobsen í viðtali við Ekstra Bladet. Hvað stóð í þeim?
„Það stóð að ég ætti að deyja, og að ég væri fífl. Það voru allir þessir hlutir, þrátt fyrir það að ég hefði ekkert með Ísland að gera,“ sagði Jacobsen.
Vildi að Nielsen fengi krabbamein í brisi
Markvörður hans, Emil Nielsen, segir í sömu grein hjá Ekstra Bladet hafa fengið ljót skilaboð í gegnum tíðina en tekist að hlæja að þeim og leiða þau hjá sér. Til að mynda á EM í Þýskalandi fyrir ári síðan.
„Ég fékk ein skemmtileg skilaboð á þýsku á EM [2024]. Eða ekki skemmtileg, en það er ekki annað hægt en að hlæja að þeim. Það var einn sem að óskaði þess að ég fengi krabbamein í brisi,“ sagði Barcelona-stjarnan.

„Þetta voru sem sagt mjög sértæk skilaboð. Það var líka þarna orð á þýsku sem ég vil ekki hafa eftir. En svona er þetta. Þetta er hluti af þessu og allt í lagi með það,“ sagði Nielsen.
Leikmenn fengu líka viðbjóðsleg skilaboð
Jacobsen er á öðru máli og segir ekki hægt að leiða svona hryllileg skilaboð hjá sér.
„Mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem hefur engin áhrif á mann, en það má segja að ég hafi lært af þessu. Núna getur fólk ekki lengur skrifað mér svona,“ sagði Jacobsen sem segir leikmenn sína einnig hafa fengið skilaboð eftir tapið sem bitnaði á Íslandi 2022:
„Þetta var óþægilegt á sínum tíma. En það var ekki bara ég sem lenti í þessu. Margir af leikmönnum mínum fengu líka virkilega viðbjóðsleg skilaboð á netinu eftir þennan leik,“ sagði Jacobsen.