Skipinu verður siglt til hafnar í Finnlandi en það hefur þegar verið við ankeri nærri Provoo í Finnlandi um nokkuð skeið.
Samkvæmt frétt Ríkisútvarps Finnlands (YLE) segja forsvarsmenn Samgöngustofunnar að vankantar skipsins snúi að ófullnægjandi eldvörnum, stýribúnaði og ekki nægilega góðu loftræstingarkerfi, svo eitthvað sé nefnt en umfangsmiklar skoðanir eru sagðar hafa verið gerðar á skipinu eftir að finnskir sérsveitarmenn tóku stjórn á því í síðasta mánuði.
Það var eftir að skemmdir voru unnar á áðurnefndum sæstrengjum, fjórum samskiptastrengjum og einum raforkustreng, en talið er að stjórnendur skipsins hafi dregið ankeri þess eftir sjávarbotninum yfir sæstrengnum og skemmt hann þannig. Yle segir ankeri hafa fundist á hafsbotni, nærri skemmdum sæstrengnum og virðist það hafa verið dregið tugi kílómetra.
Áhöfn skipsins, alls átta menn, eru grunaðir um skemmdarverk, samkvæmt lögreglu Finnlands. Þeir eru í farbanni.
Önnur skip sem talin eru hafa tilheyrt áðurnefndum skuggaflota hafa sokkið að undanförnu en mörg þeirra eru talin í mjög slæmu ásigkomulagi. Tvö olíuskip sukku til að mynda í Svartahaf í desember.
Skipið er í eigu félagsins Caracella LLC FZ, sem skráð er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Reuters hefur eftir finnskum lögmanni þess félags að skemmdirnar á sæstrengjunum hafi verið gerðar utan lögsögu Finnlands og því hafi Finnar ekki vald til að halda skipinu.
Hann hefur haldið því fram að skipinu hafi verið rænt af Finnum og hefur krafist þess fyrir dómi að því verði skilað. Þeirri kröfu var hafnað.