Þetta kemur fram í ákæru á hendur bílstjóranum, sem fréttastofa hefur undir höndum. Bílstjóranum er gefið að sök að hafa ekið steypubílnum suður Ásvelli, beygt til hægri án þess að gefa stefnuljós og án nægjanlegrar aðgæslu inn á bílastæði Ásvallalaugar, án þess að virða forgang hjólhreiðamanna, með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á Ibrahim sem lést samstundis.
Bílstjórinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi og þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og verði sviptur ökuréttindum.
Þá gera móðir og faðir Ibrahims einkaréttarkröfu á hendur bílstjóranum. Hvort um sig krefjast þau tíu milljóna króna í miskabætur, samtals tuttugu milljóna. Þau krefjast auk þess hvort um sig 500 þúsund króna vegna lögmannskostnaðar og annað þeirra krefst 943 þúsund króna vegna útfararkostnaðar. Aðalmeðferð í málinu er á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar næstkomandi.