Hundruð mannvirkja, þar á meðal íbúðarhús, hafa fuðrað upp í miklum gróðureldum sem kviknuðu í Pacific Palisades í útjaðri Los Angeles á þriðjudag. Eldarnir hafa breitt hratt úr sér og brenna nú stjórnlaust. Fjöldi Hollywood-stjarna er á meðal þeirra sem hafa misst heimili sín í eldunum.
Riviera-völlurinn í Pacific Palisades er innan svæðis sem fólki er skylt að yfirgefa vegna eldanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Engar skemmdir höfðu orðið á vellinum síðdegis í gær en myndir á samfélagsmiðlum hafa sýnt völlinn með þykkan svartan reyk í bakgrunni.
Updated video of the wildfires rapidly approaching Riviera Country Club.
— Tee Times (@TeeTimesPub) January 8, 2025
Reporters in the area have estimated the fires are moving at 2-3 football fields PER MINUTE. pic.twitter.com/U7KZjCMv84
Völlurinn verður hundrað ára gamall á næsta ári en PGA-mótaröðin hefur vanið komur sínar þangað því næst sem samfellt frá árinu 1973. Tiger Woods spilaði á sínu fyrsta PGA-móti þar árið 1992 en hann hefur verið gestgjafi mótsins frá 2020. Halda á Genesis Invitational-mótið á vellinum eftir rétt rúman mánuð.
Opna bandaríska mót karla var haldið á Riviera árið 1948 og PGA-meistaramótið árið 1983 og 1995. Völlurinn á að hýsa opna bandaríska mót kvenna á næsta ári, Ólympíuleikana árið 2028 og opna bandaríska mót karla árið 2031.
Reuters hefur eftir Keegan Bradley, fyrirliða bandaríska Ryder-bikarliðsins, sem er staddur á PGA-móti á Havaí að kylfingar frá Los Angeles sem hann spilaði með í gær hafi verið með böggum hildar.
„Fjölskyldur þeirra þurftu að yfirgefa heimili sín og heimili þeirra gætu horfið. Þetta er dapurlegt,“ segir Bradley.