Erlent

Ó­vænt skila­boð leiddu til ferðar með syni Trumps

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jørgen Boassen fór með Donald Trump yngri og föruneyti hans í skoðunarferð um Nuuk, höfuðborg Grænlands.
Jørgen Boassen fór með Donald Trump yngri og föruneyti hans í skoðunarferð um Nuuk, höfuðborg Grænlands. AP/Emil Stach

Það var múrarinn Jørgen Boassen sem tók á móti Donald Trump yngri þegar hann heimsótti Grænland á dögunum ásamt föruneyti sínu. Hann segir Bandaríkin ekki munu innlima Grænland en að Danmörk hafi algjörlega brugðist varnarskyldu sinni gagnvart grænlensku þjóðinni.

Danskir fjölmiðlar, og raunar um allan heim, loguðu þegar fréttir bárust af því að Donald Trump yngri, sonur verðandi Bandaríkjaforseta, hygðist á ferðalag til Grænlands. Einkaþota Trumps lenti á nýjum alþjóðaflugvelli í Nuuk um hádegisleytið á þriðjudaginn með erfingjann um borð ásamt föruneyti hans.

Mikið hefur verið fjallað um þessa heimsókn hans síðan. Þó hann hafi sjálfur sagst vera á Grænlandi sem ferðamaður dylst það engum að faðir hans, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sagst munu innlima Grænland inn í Bandaríkin með góðu eða illu. Hann hefur hótað Dönum refsitollum láti þeir eyjuna ekki af hendi og útilokaði það ekki á blaðamannafundi að beita hervaldi.

Einkennishúfuklæddur hópur Grænlendinga tók við Donald Trump yngri og félögum á nýjum alþjóðaflugvelli í Nuuk.AP/Emil Stach

Þegar sonur forsetans verðandi steig inn í sal flugvallarins biðu þar um 15 Grænlendingar stoltir með rauðu derhúfurnar á. Fyrir móttökuhópnum fór Jørgen Boassen, múrari og mikill stuðningsmaður Donald Trump.

„Mér var boðið til Bandaríkjanna í lok október og byrjun nóvember til að hjálpa til við forsetakosningarnar. Þar kynntist ég fullt af Bandaríkjamönnum í Repúblikanaflokknum og grasrótarhreyfingum þeirra,“ segir hann í samtali við fréttastofu en hann tók þátt í kosningaherferð flokksins, gekk dyra á milli og hvatti Bandaríkjamenn til að greiða atkvæði með Donald Trump.

Borðuðu saman hádegismat

„Svo fæ ég allt í einu skilaboð á WhatsApp þar sem stóð: Sæll, þetta er Charlie Kirk. Hvernig hefur þú það? Ég fékk símanúmerið þitt hjá fyrrum sendiherranum. Gætirðu sent mér skilaboð ef þú hefur tíma?“ segir Jørgen.

Charlie Kirk er bandarískur fjölmiðlamaður og hefur verið dyggur stuðningsmaður Trump og MAGA-hreyfingarinnar allar frá upphafi. Hann þurfti á hjálp Jørgens að halda við að skipuleggja Grænlandsförina. Jørgen átti að fara með þá félaga í sýnisferð um Nuuk.

Jørgen og Donald Trump yngri á góðri stundu.Aðsend

Hann segist hafa farið með þá um bæinn, sýnt þeim bestu útsýnisstaðina og hvar þeir gætu tekið myndbönd upp fyrir samfélagsmiðla. Þeir borðuðu einnig hádegismat saman á einum veitingastaða bæjarins.

„Þeir voru alveg ótrúlega áhugasamir um Grænland og vildu læra meira um það. Þeir ræddu við fólk á förnum vegi og voru mjög forvitnir,“ segir Jørgen.

Bandaríkin geti ein varið Grænland

Jørgen segir að orðræða Trumps undanfarna daga sé ekki innantóm orð en að hann hafi þó ekki í hyggju að innlima landið með valdi. Hann vilji heldur gera mögulegum óvinum Bandaríkjanna það morgunljóst að Grænland sé hluti af heimsálfunni Ameríku.

„Hann vill sýna þeim að Grænland sé ekki leikvöllur Rússanna eða Kínverjanna,“ segir hann.

Jørgen segir jafnframt að grænlenska þjóðin vilji ekki verða 51. ríki Bandaríkjanna og að það sé grænlensku þjóðarinnar að taka ákvarðanir um framtíð landsins. Ljóst sé þó að Bandaríkin sé eina landið sem geti raunverulega verndað Grænland.

Sjá einnig: Lík­lega búi meira að baki hug­myndum Trumps

Hann lítur til Íslands og sér það sem fyrirmynd fyrir framtíðar samskipti Grænlands við Bandaríkin annars vegar og Danmörku hins vegar.

„Það er það sem þjóðin vill en Bandaríkin verður að vera okkar nánasti samstarfsaðili, bæði hvað varnarmál varðar og fleira. Eins og Íslendingarnir voru með herinn í Keflavík. En hagsmunir Bandaríkjanna eru talsvert meiri á Grænlandi en annars staðar. Fyrir Trump er það afgerandi að Grænland sé í beinu samstarfi við Bandaríkin,“ segir hann.

Danir brugðist varnarskyldu sinni

„Að sjálfsögðu þýðir það ekki að við þurfum að slíta á tengslin við Danmörku. Það er bara eins og Íslendingar sem læra dönsku og geta farið til Danmerkur í nám. Það er ekki svart og hvítt eins og Danir reyna að mála það upp. Það gera þeir mikið og því er ég orðinn þreyttur á. Það er alltaf allt eða ekkert,“ segir Jørgen.

„Þeir hafa gjörsamlega brugðist vörnum á grænlensku strandlengjunni. Þeir geta ekki haldið uppi flota eða neinu. Þeir halda að þeir geti varið Grænland með einum hundasleða sem fer upp og niður ströndina einu sinni á veturna sem er fullkomlega galið þegar danska ríkisstjórnin stendur skyndilega í þvílíkum hótunum við Rússland.“

Jørgen og Trump yngri við styttu af Hans Egede, stofnanda Nuuk.Aðsend

Hann segir grænlensku þjóðina hafa talsvert meiri áhyggjur af rússnesku herbrölti heldur en bandarísku og segir danska fjölmiðla og orðræðu danskra stjórnvalda skapa sundrungu bæði í Danmörku og á Grænlandi.

„Hræðsluáróðursherferð danskra fjölmiðla hefur auðvitað áhrif á vilja Grænlendinga til samstarfs við Bandaríkin. Það hefur haft stór áhrif að fjölmiðlar Dananna hafa haft Trump í sigtinu síðustu átta árin því Trump vildi vinna beint með Grænlandi sem fór hræðilega í taugarnar á Dönunum,“ segir Jørgen.

Fari Danir í stríð gerir Grænland það líka

Jørgen segir Grænland á flæðiskeri statt í ljósi síaukinnar heiftar orðræðu danskra stjórnvalda í garð Rússlands.

„Ef Danmörk fer í stríð við Rússland eða einhvern annan þá er Grænland sjálfkrafa með. Við getum ekki sagt nei eins og Færeyingarnir gera þegar þeir neita að hætta að stunda viðskipti við Rússana. Við neyðumst til að taka þátt í viðskiptabanni Dananna. Það hefur orðið til þess að það er risasvæði sem Rússarnir gætu kíkt á og sagt: Við tökum þetta bara og komum hernum okkar fyrir hér því Danirnir ögra okkur í sífellu.“

Jørgen segist ekki sjálfur vera með öll svörin og að það sé grænlenska þjóðin öll sem ákveði framhaldið.

„Við þurfum ekki að missa samband okkar við Danmörku en það sem Danirnir segja er að við séum annað hvort með þeim eða á móti. Það gerir ekkert nema að skapa sundrung innan beggja þjóða.“


Tengdar fréttir

Brugðið vegna ummæla Trumps og segir blikur á lofti í alþjóðamálum

Utanríkisráðherra Íslands segir blikur á lofti í alþjóðamálum og áréttar að Grænland sé ekki til sölu. Verðandi Bandaríkjaforseti ásælist landsvæði Grænlendinga og í gær sagðist hann ekki útiloka að hervaldi verði beitt til að svo megi verða. Á meðan spókaði sonur hans sig í umdeildri heimsókn á Grænlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×