Stjórnendur safnsins sem nú er rekið í Auschwitz hafa hins vegar ákveðið að enginn þeirra fái að halda ræðu. Þeir einu sem munu stíga á svið verða nokkrir síðustu eftirlifendur búðanna sem enn eru á lífi.
„Það verða engar pólitískar ræður,“ hefur Guardian eftir Piotr Cywinski, framkvæmdastjóra safnsins.
„Við viljum einblína á síðustu eftirlifendurna meðal okkar og á sögu þeirra, sársauka, tráma og þær siðferðilegu skuldbindingar sem þeir leggja okkur á herðar.“
Þrátt fyrir viðleitni Cywinski og kollega hans til að hafa viðburðinn eins ópólitískan og kostur er hafa deilur þegar sprottið upp í tengslum við gestalistann, ef svo má að orði komast.
Aðstoðarutanríkisráðherra Póllands sagði meðal annars fyrr í mánuðinum að ef Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, yrði viðstaddur viðburðinn myndu yfirvöld ekki sjá sér annað fært en að handtaka hann.
Forsætisráðherrann Donald Tusk dró hins vegar í land á fimmtudag og sagði að allir stjórnmálamenn frá Ísrael, þeirra á meðal Netanyahu, gætu verið viðstaddir áhyggjulaust, þrátt fyrir að Pólverjar ættu aðild að Alþjóðlega sakamáladómstólnum.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur sem kunnugt er gefið út handtökuskipun á hendur Netanyahu vegna aðgerða Ísraelsmanna á Gasa.
Cywinski segir um að ræða storm í vatnsglasi, þar sem engar fregnir hafi borist af því að Netanyahu hafi haft í hyggju að mæta. Hins vegar verði stór sendinefnd frá Ísrael viðstödd athöfnina.
Þrátt fyrir að það hafi verið Sovétmenn sem frelsuðu búðirnar hefur Rússum ekki verið boðið. Cywinski segir bæði Rússa og Úkraínumenn hafa verið meðal frelsaranna en það sé óviðeigandi að bjóða þeim að vera viðstaddir sem skilji ekki gildi frelsisins.