Fótbolti

„Þjálfarinn sem að lokum tekur á­kvörðunina um það hver okkar spilar“

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenska landsliðið er heppið að búa að því að eiga marga góða markverði. Fanney Inga og Cecilía Rán eru tveir þeirra
Íslenska landsliðið er heppið að búa að því að eiga marga góða markverði. Fanney Inga og Cecilía Rán eru tveir þeirra Vísir/Samsett mynd

Ís­lenski lands­lið­mark­vörðurinn Fann­ey Inga Birkis­dóttir segir það vilja mark­varða ís­lenska lands­liðsins að það sé mikil sam­keppni um stöðuna í markrammanum. Sam­keppnin sé á góðu nótunum en að auðvitað vilji allir á endanum spila. Mikilvægt EM ár fyrir ís­lenska lands­liðið er runnið upp og mark­verðir liðsins hafa verið að gera mjög vel.

Undir lok síðasta árs var Fann­ey Inga keypt frá Val til sænska úr­vals­deildar­félagsins Hac­ken og sagði í yfir­lýsingu Vals að kaup­verðið hafi verið upp­hæð sem hefði ekki sést í ís­lenska kvenna­boltanum til þessa.

Þrátt fyrir unga aldur hefur þessi öflugi mark­vörður staðið vaktina í marki ís­lenska kvenna­lands­liðsins undan­farið en sam­keppnin þar er hörð og er Cecilía Rán Rúnars­dóttir, sem er á láni hjá ítalska félaginu Inter Milan og var valinn í lið ársins í ítölsku úr­vals­deildinni í fyrra, að gera al­vöru til­kall um sæti í byrjunar­liði Ís­lands.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er að gera frábæra hluti hjá Inter.Getty/Pier Marco Tacca

„Fyrst og fremst hugsað út frá mér“

Að­spurð hvort skrefið út til Svíþjóðar sé tekin með það að ein­hverju leiti í huga að verða betur í stakk búin fyrir þá sam­keppni segir Fann­ey svo ekki vera.

„Ég er fyrst og fremst að taka þetta skref fyrir mig. Mig langar að verða betri leik­maður. Með því að verða betri leik­maður sjálf get ég vonandi ýtt áfram á þessa sam­keppni sem er í lands­liðinu. Við viljum allar verða betri og á sama tíma hjálpa hvor annarri að fara upp á næsta gæða­stig. Fyrst og fremst er þetta hugsað út frá mér en auðvitað vill maður líka spila.“

Sam­bandið milli mark­varða ís­lenska lands­liðsins sé gott. Stemningin frábær milli hennar, Cecilíu Ránar og Telmu Ívarsdóttur sem hafa myndað markvarðarteymi íslenska landsliðsins upp á síðkastið.

Telma Ívarsdóttir, markvörður Íslandsmeistara Breiðabliks, hefur verið orðuð við brottför út í atvinnumennskuna. Hér veitir hún gullhanskanum viðtöku eftir lokaleik síðasta tímabils.Vísir/Pawel

„Þær eru al­gjörir meistarar Telma og Cecilía og búið að vera frábært að æfa með þeim. Svo er það bara þjálfarinn sem að lokum tekur ákvörðunina um það hver okkar spilar, við vitum það og munum bara gera hvað sem við getum til að styðja við bakið á hvor annarri. Við viljum að það sé sam­keppni, bæði á æfingum sem og í leikjum, því þannig verðum við betri og lands­liðið líka.“

„Á okkar degi erum við helvíti góðar“

Fram­undan er stórt ár hjá ís­lenska lands­liðinu, há­punkturinn EM í Sviss í sumar en þar er Ís­land í riðli með Sviss, Noregi og Finn­landi.

Er kominn EM fiðringur?

„Já það er kominn ákveðinn fiðringur. Fólk farið að kaupa miða, dregið í riðla um daginn og það var bara eins og við hefðum fengið að draga riðilinn sjálfar. En það er ákveðið mark­mið sem fylgir því og það verður gaman að fara og keppa í Sviss.“

vísir/Anton

Fann­eyju lýst vel á mögu­leika Ís­lands má mótinu

Hversu langt getið þið náð?

„Ég held að við getum farið mjög langt. Tíminn verður bara að leiða það í ljós. Við erum búin að sjá að við getum strítt stærstu þjóðum heims. Þegar að við erum á okkar degi erum við helvíti góðar. Ég held að við getum strítt þeim mjög mikið í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×