Upp­gjörið: Kefla­vík - Grinda­vík 88-82 | Nýir þjálfarar fögnuðu sigri í há­spennu­leik

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Vísir/Diego

Grindavík heimsótti Keflavík í kvöld í grannaslag í Bónus deild kvenna í körfubolta. Leikurinn var gríðarlega jafn allan leikinn en útlit var fyrir að Grindavík væri að klára þennan leik þar sem þær voru sex stigum yfir með tvær mínútur eftir. Allt varð fyrir ekki því Keflavík setti þá tólf stig gegn engu frá Grindavík á þessum loka mínútum og unnu leikinn 88-82.

Grindavík byrjaði leikinn af meiri krafti en heima konur og þær náðu mest í sex stiga forskot í stöðunni 11-17. Það var Daisha Bradford sem leiddi sóknarleikinn hjá Grindavík þar sem hún var ákaflega hittin úr þristunum sínum og bjó þar af leiðandi til mikið pláss fyrir liðsfélaga sína. Leikhlutanum lauk í stöðunni 27-32, mikill hraði í leiknum og mikið skorað.

Daisha Bradford ber boltann upp.Vísir/Diego

Í öðrum leikhluta komu Keflavíkur konur aðeins sterkara inn í leikinn og þær náðu að komast yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Daisha Bradford hélt hinsvegar áfram að brillera fyrir Grindavík sóknarlega og hún endaði hálfleikinn með 20 stig, þar af fjórir þristar úr fimm tilraunum. 

Jasmine Dickey og Sara Rún voru atkvæðamestar Keflavíkur megin í hálfleiknum en þær gerðu 16 og 13 stig. Hálfleikstölur voru 48-48, allt jafnt og útlit fyrir að það yrði spenna fram að síðustu mínútu.

Jasmine Dickey er ekki aðeins góð í körfubolta heldur einnig gríðarlega liðug.Vísir/Diego

Í þriðja leikhluta fór sóknarleikur beggja liða aðeins að hægjast. Það tók til að mynda Keflavík heilar fimm mínútur að gera fjögur stig. Lið Grindavíkur var ekkert mikið skárra því þær gerðu aðeins tvö fleiri stig en heima konur og staðan þegar einn leikhluti var eftir 61-63. Það var þá allt undir í fjórða leikhluta.

Í fjórða leikhluta byrjaði Grindavík hægt og rólega aðeins að skilja sig frá heima konum. Daisha Bradford og Hulda Björk skiluðu tveimur þristum í röð fyrir Grindavík þegar um fimm mínútur voru eftir og gestirnir þá komnir sjö stigum yfir. 

Daisha Bradford í harðri baráttu við leikmenn Keflavíkur.Vísir/Diego

Stemmningin var þeirra megin alveg fram að því að það voru rétt rúmar tvær mínútur eftir. Þá tekur Keflavík leikhlé í stöðunni 76-82. Á mjög stuttum kafla negla Keflvíkingar þrist eftir þrist og skora í heildina 12 stig gegn engum á þessum loka kafla og því loka staðan 88-82 fyrir Keflavík.

Atvik leiksins

Anna Ingunn setur þrist fyrir Keflavík til að minnka muninn í 79-82 þegar tvær mínútur eru eftir. Stúkan tekur heldur betur við sér, Grindavík fer upp í sókn og klikkar og Jasmine Dickey fer upp hinumegin og jafnar metin með öðrum þrist. Svakaleg mínúta þarna fyrir Keflavík.

Anna Ingunn með boltann.Vísir/Diego

Stjörnur og skúrkar

Jasmine Dickey var með 37 stig og 10 fráköst auk þess sem hún setti þennan jöfnunar þrist á mikilvægasta tímapunkti leiksins. Frábær leikur hjá henni. Daisha Bradford var líka frábær í Grindavíkur liðinu en hún var með 34 stig og 16 fráköst.

Erfitt að benda á einhvern einn skúrk í þessum leik. Grindavíkur liðið síðustu tvær mínúturnar hrundi bara sem heild. Það er ekki ásættanlegt að fá á sig 12 stig á rétt rúmum tveimur mínútum án þess að svara með einu einasta stigi.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Diego

Dómararnir

Línan var á köflum ekki alveg samkvæm sjálfu sér af mínu mati. Þetta var hinsvegar ekki auðveldasti leikurinn fyrir dómara þríeykið og það voru engin mistök hjá þeim sem voru afdrifarík fyrir loka úrslit leiksins.

Stemning og umgjörð

Það var frekar vel mætt í stúkuna í Blue-höllinni í kvöld og fólk nokkuð hresst. Aðal stemningin virtist þó vera á bekknum hjá Keflavík þar sem þjálfarateymi og annað starfsfólk liðsins lifði sig gríðarlega inn í leikinn. Þessi læti voru greinilega smitandi því eftir því sem leið á leikinn mátti sjá stúkuna taka vel við sér og það voru komin alvöru læti í lokin.

„Byrjuðum náttúrulega rosalega illa“

Sigurður Ingimundarsson er mættur aftur á hliðarlínuna.Vísir/Diego

Sigurður Ingimundarsson stýrði Keflavík í kvöld í fyrsta skipti þar sem hann er nýráðinn aðalþjálfari liðsins. Hann hefur aðeins getað séð um eina æfingu fyrir leikinn og því lítið getað haft áhrif en hann var ánægður með sigurinn í kvöld.

„Mér fannst skemmtunin frábær, tvö góð lið, spennandi og vel leikið svona mestan part. Ég er bara hrikalega ánægður.” Sagði Sigurður.

Keflavíkur liðið kom til baka á lokamínútunum eftir að hafa verið sex stigum undir þegar tvær mínútur voru eftir og enduðu á að vinna leikinn með sex stigum.

„Ég var mjög ánægður með karakterinn. Við byrjuðum náttúrulega rosalega illa og kannski eðlilega, vörnin okkar í fyrsta leikhluta var bara ömurleg. En við löguðum það og hægt og rólega í gegnum leikinn urðum við betri og þetta féll okkar megin. Þetta var svaka leikur og Grindavík spilaði vel.” Sagði Sigurður.

Keflavík er meðal efstu liða í deildinni á meðan Grindavík er í neðsta sæti. Það mátti því búast við sigri frá Keflavík í kvöld en fæstir bjuggust við svona jöfnum leik.

„Ég gat ekki farið fram á neitt í dag, þannig ég er bara ánægður með stelpurnar. Það voru ekkert margar sem spiluðu í kvöld og við eigum fleiri inni þannig við eigum eftir að verða betri en þetta.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira