Fótbolti

Hákon og Mannone hetjurnar

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson er kominn með þrjú mörk fyrir Lille, í öllum keppnum, á rúmum mánuði.
Hákon Arnar Haraldsson er kominn með þrjú mörk fyrir Lille, í öllum keppnum, á rúmum mánuði. Getty/Catherine Steenkeste

Hákon Arnar Haraldsson var í stóru hlutverki í Marseille í gær þar sem hann skoraði eina mark Lille í venjulegum leiktíma, í 32-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í fótbolta.

Hákon kom Lille yfir í leiknum á 68. mínútu, með því að klobba markvörð Marseille eftir sendingu frá Jonathan David.

Mark Hákonar dugði þó ekki til sigurs því á sjöttu mínútu uppbótartíma, rétt eftir að Skagamanninum var skipt af velli, náðu heimamenn í Marseille að jafna með marki frá Luis Henrique. 

Úrslitin réðust því í vítaspyrnukeppni og þar var komið að markverðinum Vito Mannone að vera hetjan. 

Mannone, sem lék í ensku úrvalsdeildinni með Arsenal og Sunderland, er vanalega á varamannabekk Lille en fékk að spila í bikarnum í gær og þakkaði fyrir sig með því að verja tvær vítaspyrnur.

Lille nýtti hins vegar allar sínar spyrnur og komst þannig áfram í 16-liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×