Erlent

Segir sam­komu­lagið standast og vopna­hléið hefjist á sunnu­dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Blinken er utanríkisráðherra í ríkisstjórn Joe Biden. Marco Rubio tekur við ráðuneyti hans þegar Donald Trump tekur við á mánudaginn.
Blinken er utanríkisráðherra í ríkisstjórn Joe Biden. Marco Rubio tekur við ráðuneyti hans þegar Donald Trump tekur við á mánudaginn. Vísir/EPA

Vopnahléið á Gasa mun hefjast á sunnudag þótt svo að viðsemjendur þurfi að hnýta í lausa enda á síðustu stundu. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi að samkomulagði stæðist og tæki gildi á sunnudag.

Greint var frá því síðdegis í gær að Hamas og Ísrael hefðu komist að samkomulagi um vopnahlé og frelsun gísla sem hafa verið í haldi á Gasa og í Ísrael. Í dag var svo greint frá því að fundi hjá ríkisstjórn Ísraels hefði verið frestað vegna deilna um fangaskipti. Ísraelar héldu á samt tíma árásum sínum áfram á Gasa og samkvæmt palestínskum yfirvöldum létust um 80 í loftárásum. Ísraelski herinn segist hafa skotið á 50 skotmörk.

Í frétt Reuters um málið er haft eftir Izzat el-Reshiq sem er hátt settur innan Hamas að samtökin séu skuldbundin við samkomulagið.

Blinken sagði á blaðamannafundi síðdegis í dag að það kæmi ekkert á óvart, eftir langar og erfiðar viðræður, að það þurfi að hnýta í lausa enda. Í frétt Reuters er svo haft eftir nafnlausum embættismanni að eina deiluatriðið snerist um fangaskipti. Sáttasemjarar á vegum Joe Biden og Donald Trump eru í Doha í Katar ásamt sáttasemjurum frá Katar og Egyptalandi að vinna að því að leysa vandamálið.

Þriggja fasa samkomulag

Fram hefur komið að samkvæmt þessu þriggja fasa samkomulagi myndu Hamas-liðar sleppa fjölda gísla í skiptum fyrir það að Ísraelar sleppi Palestínumönnum úr fangelsi. Í fyrsta fasanum eiga Hamas-liðar að sleppa 33 gíslum yfir sex vikna tímabil og Ísraelar eiga að sleppa fimmtíu Palestínumönnum.

Samkomulagið á að greiða fyrir það að hjálparsamtök geti komið hjálpargögnum inn á Gasasvæðið en afar erfitt hefur verið að koma hjálpargögnum á svæðið. Í frétt Reuters segir að þegar sé bílaröð við landamæri Egyptalands og Gasa og aðeins beðið eftir heimild til að aka þeim inn á svæðið.

Samkomulagið tekur ekki gildi fyrr en ríkisstjórn Ísraels hefur samþykkt það. Einhver mótstaða er innan ríkisstjórnarinnar og hefur öryggismálaráðherra Ísrael, Itamar Ben-Gvir, hótað að segja af sér verði samkomulagið samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×