Erlent

Stofnaði eigin grín-rafmynt rétt fyrir em­bættis­töku

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump tekur við embætti á morgun.
Donald Trump tekur við embætti á morgun. AP/Matt Rourke

Donald Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á morgun, stofnaði í gær eigin rafmynt. Virði rafmyntarinnar hefur aukist mjög en hún hefur þó orðið fyrir töluverðri gagnrýni.

Rafmynt þessi ber nafnið $TRUMP og er hún skilgreind sem svokölluð meme-rafmynt og byggir hún á Solana-gagnakeðjunni (e. Blockchain).

Samkvæmt upplýsingum á síðu rafmyntarinnar er búið að gefa út 200 milljón rafmyntir og 800 milljónir til viðbótar gefnar út á næstu þremur árum.

Trump tilkynnti rafmynt sína á samfélagsmiðlum í gær.

Þessar svokölluðu „meme“-rafmyntir eru alræmdar fyrir það að virði þeirra getur ekki byggt á neinu öðru en mikilli umfjöllun og spennu kringum þær.

Virði rafmyntarinnar jókst mjög í upphafi og var heildarverðmæti rafmyntanna metið á sex milljarða dala í gærkvöldi, samkvæmt frétt Wall Street Journal. Þegar þetta er skrifað er virðið komið í 12,9 milljarða dala, samkvæmt Coin Market Cap. Það samsvarar um 1,8 billjón króna.

Útgáfa rafmyntarinnar hefur verið gagnrýnd töluvert og meðal annars af stuðningsmönnum Trumps og rafmynta. Stærsta gagnrýnisatriðið er að áttatíu prósent rafmyntanna eru í eigu félaga í eigu fyrirtækis Trumps.

Þá hefur WSJ eftir sérfræðingum að rafmyntin veki áhyggjur varðandi hagsmunaárekstra. Erlendir aðilar og forsvarsmenn fyrirtækja geti keypt rafmynt til að hafa áhrif á Trump.

Trump hefur heitið því að gera rafmynt hátt undir höfði, ef svo má segja, á kjörtímabili sínu. Hann hefur meðal annars talað um að gera lög til að bæta viðskipti með rafmyntir og talað um Washington DC sem höfuðborg rafmynta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×