Handbolti

„Ís­lenska liðið lítur vel út“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dagur á hliðarlínunni með króatíska liðinu.
Dagur á hliðarlínunni með króatíska liðinu. vísir/getty

Það verður vafalítið sérstök stund fyrir Dag Sigurðsson að mæta Íslandi í kvöld en hann er þjálfari króatíska landsliðsins. Fyrsti útlendingurinn sem fékk það eftirsótta starf.

„Hausinn er kominn á leikinn gegn Íslandi. Það getur vel verið að það hjálpi eitthvað að vita meira en flestir aðrir þjálfarar hérna um Ísland en þetta verður stórleikur fyrir okkur,“ segir Dagur nokkuð léttur og býst eðlilega við erfiðum leik.

„Við reynum að gera okkar besta. Allir sem sáu Slóvenaleikinn sáu að Ísland er sterkt og lítur vel út. Við erum svo sem ekkert ónýtir ef hlutirnir ganga.“

Dagur er búinn að missa helstu stjörnur Króata í meiðsli á mótinu. Luka Cindric náði ekkert að spila og Domagoj Duvnjak meiddist alvarlega snemma í mótinu.

„Það var smá högg. Á sama sólarhringnum og fyrir stóra leikinn í riðlinum. Það verður að segjast eins og er.“

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×