Efstu tvö liðin í milliriðli II munu mæta liðum úr milliriðli IV, sem Ísland leikur í, þegar kemur í 8-liða úrslitin.
Von Norður-Makedóníu um að ná þangað er veik en hún lifir eftir sigurinn í dag. Síðar í dag mætast Holland og Frakkland, og svo Austurríki og Ungverjaland. Staðan fyrir þessa leiki er: Frakkland 6, Holland 4, Norður-Makedónía 4, Ungverjaland 3, Austurríki 3, Katar 0.
Norður-Makedónía þarf því að vinna Evrópumeistara Frakka í lokaumferð milliriðilsins á laugardaginn, og treysta á fleiri hagstæð úrslit. Sigurinn í dag gefur þó í það minnsta von um besta árangur liðsins á HM síðan það endaði í 9. sæti árið 2015.
Það var aldrei spurning hvernig færi í leiknum við Katar í dag. Norður-Makedónía var 21-17 yfir í hálfleik og hélt Katörum frá sér í seinni hálfleiknum.
Filip Kuzmanovski og Zharko Peshevski voru markahæstir hjá Norður-Makedóníu í dag með sex mörk hvor, en Marko Mitev skoraði fimm og var valinn maður leiksins. Hjá Katar var Frankis Marzo markahæstur með tólf mörk.
Tékkland fékk sín fyrstu stig í milliriðli I með sigri á Túnis, 26-32. Hvorugt liðið á möguleika á að komast í átta liða úrslit.