Upp­gjörið og við­töl: Þór Þ. - ÍR 94-95 | Dramatískur sigur hjá gestunum

Hjörvar Ólafsson skrifar
ÍR vann sinn sjöunda sigur á tímabilinu í kvöld og jafnaði Þór Þ. og fleiri lið að stigum.
ÍR vann sinn sjöunda sigur á tímabilinu í kvöld og jafnaði Þór Þ. og fleiri lið að stigum.

ÍR jafnaði Þór Þorlákshöfn að stigum með dramatískum eins stigs sigri sínum í leik liðanna í 15. umferð Bónus deildar karla í körfubolta í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur í Þorlákshöfn urðu 94-95 en það var Zarko Jukic sem tryggði ÍR sætan sigur með því að blaka boltanum ofan í rétt rúmri sekúndu fyrir leikslok.

ÍR-ingar hófu leikinn af miklum krafti og voru með frumkvæðið allan fyrsta leikhlutann en staðan var 24-32 gestunum í vil að loknum fyrsta fjórðungi.

Heimamenn vöknuðu hins vegar til lífsins í öðrum leikhluta en Nik Tomsick, Jordan Sample og Steeve Ho You Fat, sem gekk til liðs við Þór frá Haukum í vikunni, fóru fyrir liðinu sem komst yfir í fyrsta skipti í leiknum undir lok hálfleiksins.

Ólafur Björn Gunnlaugsson, sem átti kraftmikla innkomu af varamannabekknum, sá síðan til þess að Þór var með þriggja stiga forskot, 51-48, þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en Oscar Jorgensen batt fallegan endahnút á fjórðunginn þegar hann setti niður sniðskot og kem gestunum úr Breiðholti 75-76 yfir í þann mund sem flautan gall.

Sama spenna hélt áfram í fjórða leikhluta en forystan sveiflaðist á milli liðanna. Það var því í takt við leikinn að úrslitin skyldu ráðast á lokaandartaki leiksins. Jukic blakaði þá boltanum ofan í þegar 1,2 sekúnda var eftir. 

Þórsarar héldu í lokasókn sína og létu boltann í hendurnar á Nik Tomsick eins og búist var við. Tomsick ætlaði að ráðast að körfunni en boltinn var sleginn úr höndunum á honum. Þórsarar vildu meina að um villu væri að ræða en dómarar leiksins voru ekki á sama máli og sigur ÍR-inga því staðreynd. 

ÍR hefur haft betur í sex af þeim átta leikjum sem Borche Ilievski hefur stýrt eftir að hann snéri aftur í Breiðholtið. Þór Þorlákshöfn, ÍR, KR, Keflavík og Valur eru nú jöfn að stigum með 14 stig í fimmta til níunda sæti í þessari fáránlega jöfnu, spennandi og skemmtilegu deild. 

Lárus Jónsson, þjáflari Þórs Þorlákshafnar.Vísir/Jón Gautur Hannesson

Lárus Jónsson: Hörkuleikur sem gat dottið báðu megin

„Þetta var jafn leikur þar sem forystan gekk á milli liðanna allan leikinn. Mér fannst við ná góðum tökum á leiknum í seinni hálfleik og hélt að við værum að landa tveimur stigum í höfn. Því miður áttu þeir síðasta höggið og sigldu sigrinum heim,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. 

„Frammistaðan var bara heilt yfir fín þrátt fyrir að ég sé auðvitað svekktur með tapið. Við erum að stilla saman strengi með nýtt lið og mér finnst við vera á réttri leið. Það er auðvitað erfitt að vera að koma nýjum mönnum inn leik eftir leik en við munum verða betri á lokakaflanum held ég,“ sagði Lárus enn fremur. 

Steeve Ho You Fat spilaði sinn fyrsta leik fyrir Þór í kvöld en hann gekk til liðs við félagið frá Haukum fyrr í vikunni. Lárus var ánægður með frumraun hans: „Hann kom bara fínt inn í þetta en það mun taka hann nokkra leiki að komast almennilega í takt við liðið. Það sýndi sig hins vegar í kvöld að hann mun gefa liðinu mikið í komandi baráttu,“ sagði hann um nýjasta liðsmann sinn. 

Borche Ilievski: Fengum framlag úr mörgum áttum

„Þetta var mikil skemmtun og góður körfubolti spilaður af báðum liðum hér í Þorlákshöfn í kvöld. Bæði lið spiluðu af mikilli ákefð og það voru gæði í leikmönnum beggja liða. Við byrjuðum betur en þeir efldust eftir því sem leið á. Sem betur fer náðum við að kreista fram sigur,“ sagði Borche Ilievksi. 

„Það sem gleður mig mest er hvað við fengum framlag frá mörgum leikmönnum og sá karakter sem við sýndum á lykilaugnablikum í leiknum. Við vorum sterkir andlega og líkamlega og liðsheildin var gjörsamlega frábær. Það skilaði þessum sigri,“ sagði Borche þar að auki. 

„Hver stig eru gulls ígildi í þessari gríðarlega jöfnu deild og þessi lið eru nú í einum pakka með fleiri liðum. Við erum komnir á góðan stað en við erum ekki saddir og ætlum okkur meira. Við þurfum að halda áfram að leggja hart að okkur og hala inn stigum. Það er stefnan hjá okkur að fara í úrslitakeppnina,“ sagði hann um framhaldið. 

Borche Ilievski hefur byrjað vel í brúnni í Breiðholti. Vísir/Daníel

Atvik leiksins

Karfan sem réði úrslitum var atvik leiksins en Jukic var þá réttur maður á réttum stað og skoraði stigin sem tryggðu dramatískan sigur ÍR. Það var skrifað í skýin allan leikinn að þetta yrði naglbítur og það varð síðan raunin. 

Stjörnur og skúrkar

Nik Tomsick dró vagninn hvað stigaskorun varðar hjá Þór en hann skoraði 21 stig í leiknum. Jordan Sample og Steeve Ho You Fat komu næstir með 16 stig hvor. Ólafur Björn kom svo með 14 stig af bekknum. 

Jacob Falko og Matej Kavas léku á als oddi fyrir ÍR-inga en þeir skoruðu hvor um sig 28 stig. Oscar Jorgensen kom með mikilvægar körfur undir lok leiksins. Fyrstu stig Jukic í leiknum voru svo þau sem skildu liðin að. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson og Daníel Steingrímsson, dæmdu hraðan og fýsíkal leik bara með ágætum. Þórsarar voru ekki par sáttir við dómarateymið fyrir ákvörðun sína í lokasókn sinni. Spurning hvort að þeir hafi haft eitthvað fyrir sér og Tomsick hafi átt að fá villu. 

Stemming og umgjörð

Það var fínasta mæting í Þorlákshöfn í kvöld. Liðsmenn Ghetto Hooligans voru ekki margir en á sama tíma háværir og hvöttu liðið sitt með ráðum og dáðum. Stuðningsmannasveit Þór var ung og vösk og gerði allt sem hún gat til þess að kalla stigin tvö í hús. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira