Fótbolti

Neymar á leið heim í Santos

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar í leik með Santos fyrir þrettán árum. Hann er sterklega orðaður við heimkomu þessa dagana.
Neymar í leik með Santos fyrir þrettán árum. Hann er sterklega orðaður við heimkomu þessa dagana. getty/Helio Suenaga

Flest bendir til þess að Brasilíumaðurinn Neymar snúi aftur til Santos, félagsins sem hann ólst upp hjá.

Neymar sleit krossband í hné í fyrra, skömmu eftir að hafa gengið í raðir Al Hilal í Sádi-Arabíu. Hann er enn samningsbundinn félaginu en var ekki skráður í leikmannahóp þess í sádi-arabísku úrvalsdeildinni. Hann getur því aðeins spilað í Meistaradeild Asíu.

Hinn 32 ára Neymar er að öllum líkindum á förum frá Al Hilal og ESPN segir að hann muni snúa aftur til Santos. Samningi hans við Al Hilal verður væntanlega rift og hann semur við Santos til sex mánaða með möguleika á árs framlengingu. Auk þess að spila með Santos mun Neymar eignast hlut í félaginu.

Neymar, sem er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins, lék sinn fyrsta leik fyrir Santos 2009, þá aðeins sautján ára. Tveimur árum síðar vann liðið Copa Libertadores, sem er eins konar Meistaradeild Suður-Ameríku, í fyrsta sinn í hálfa öld.

Sumarið 2013 gekk Neymar í raðir Barcelona og lék með liðinu í fjögur ár. Hann fór svo til Paris Saint-Germain 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×