Ljóst er eftir dráttinn að fulltrúi Íslands mun stíga á svið fyrri hluta kvöldsins. Svíþjóð og Noregur voru bæði á meðal þeirra Norðurlanda sem dregin voru til þess að keppa saman kvöld og Ísland. Þá var einnig dregið um það í hvorum undanúrslitinum fimm stóru löndin sem leggja keppninni mesta fjármuni fá að greiða sín atkvæði í. Sviss, sem sigurvegari í fyrra og Ítalía og Spánn fá að kjósa í riðli Íslands. Dregið verður síðar um nákvæma röð keppenda í undanúrslitunum.
Eins og alþjóð veit á Ísland enn eftir að velja sér fulltrúa. Það verður gert í Söngvakeppninni sem fram fer þrjár helgar í röð í febrúar, fyrri undanúrslit þann 8. febrúar og þau síðari þann 15. febrúar. Úrslitin verða svo þann 22. febrúar og í þetta skiptið er úrslitaeinvígið svokallaða á bak og burt og stigafjöldi símaatkvæða og dómnefnda ræður úrslitum.
Dregið var um röðina á sérstökum viðburði í dag þar sem skipuleggjendur keppninnar í Malmö í fyrra afhentu skipuleggjendum í Basel skipulagningu keppninnar formlega.



Tveir sigurvegarar gætu keppt sama kvöld og Ísland
Svo gæti farið að tveir fyrrverandi Eurovision sigurvegarar muni stíga á svið á sama kvöldi og Ísland keppir. Það yrði annars vegar Mans Zelmerlow fyrir hönd Svíþjóðar fari svo að hann beri sigur úr býtum í sænsku undankeppninni Melodi Festivalen en hann kom, sá og sigraði Eurovision árið 2015 með Heroes. Hann snýr nú aftur í undankeppni með lagið Revolution en enn á eftir að svipta hulunni af laginu.
Það yrði svo hinsvegar Bobbysocks fyrir hönd Noregs en tvíeykið tók síðast þátt í keppninni fyrir fjörutíu árum síðan. Þá sigruðu þær keppnina með La Det Swinge. Þær munu líklega berjast á banaspjótum í norsku undankeppninni Melodi Grand Prix við glamrokkarana í Wig Wam sem einnig eiga endurkomu í keppnina.
Þeir voru fulltrúar Noregs árið 2005 með lagið In My Dreams og slógu gjörsamlega í gegn á Íslandi og stigu meðal annars á svið í Smáralind í Kópavogi sama ár. Úrslit norsku undankeppninnar fara fram 15. febrúar en Svíar velja sér sinn fulltrúa þann 8. mars næstkomandi.