Í tilkynningu þess efnis á vef Veðurstofu Íslands segir að út frá greiningu fyrri atburða hafi vísindamenn metið sem svo að þegar jafn mikið magn af kviku hefur safnast undir Svartsengi og kom upp í síðasta eldgosi, aukist líkurnar á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
Uppfært hættumat
Veðurstofan hafi uppfært hættumat og það gildi til 11. febrúar, að öllu óbreyttu. Ákveðið hafi verið að breyta hættustigi á svæði 4 og 6 í úr „nokkur“ hætta (gult) yfir í „töluverða“ hættu (appelsínugult). Ástæðan fyrir breytingunum sé að samkvæmt líkanreikningum hafi magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi nálgast það magn sem kom upp í síðasta eldgosi.

Samkvæmt veðurspá sé von á umhleypingum út vikuna. Sunnan stormur með afgerandi hlýindum, rigningu og súld á sunnan- og vestanverðu landinu þegar líður á vikuna og um helgina. Slæm veðurspá gæti dregið úr næmni mælanetsins og þannig lengt viðbragðstíma vegna eldgoss.
Fyrirvarinn gæti orðið lítill
Loks segir að jarðskjáltavirkni á Sundhnúksgígaröðinni hafi aukist hægt frá goslokum 9.desember 2024 en virknin sé enn lítil.

„Þróunin síðasta árið sýnir að jarðskjálftavirkni fyrir kvikuhlaup hefur farið minnkandi með hverjum atburði. Því er möguleiki á að jarðskjálftavirkni verði ekki mikil fyrir næsta eldgos.“