Portúgal byrjaði leik kvöldsins mun betur og var 5-1 yfir þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar. Eftir að hafa náð að minnka muninn niður í tvö mörk var hann kominn aftur upp í fjögur þegar fyrri hálfleikur rann sitt skeið, staðan 13-9.
Eitthvað hefur Alfreð sagt í hálfleik því Þjóðverjar byrjuðu síðari hálfleik af krafti. Um miðbik hans skoruðu þeir fjögur mörk í röð og fóru þar með úr því að vera tveimur mörkum undir í að vera tveimur mörkum yfir.
Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði leiks og tókst Portúgal að knýja fram framlengingu með marki Pedro Portela þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Staðan 26-26 og því þurfti að framlengja.
Framlengingin var nokkuð sveiflukennd en á endanum var það Martim Costa sem skoraði það sem reyndist sigurmarkið, lokatölur 31-30.

Francisco Mota da Costa var markahæstur hjá Portúgal með átta mörk og fjórar stoðsendingar. Þar á eftir kom Victor Iturriza með sjö mörk. Hjá Þýskalandi var Lukas Zerbe markahæstur með níu mörk.
Portúgal mætir Danmörku, ríkjandi heimsmeisturum, í undanúrslitum.