Heimildir norska ríkisútvarpsins herma að líklegasta niðurstaðan sé að Miðflokkurinn gangi út úr ríkisstjórnarsamstarfinu. Það gæti jafnvel gerst strax eftir fyrirhugaðan fund flokksmanna í dag. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, er sagður hafa afboðað sig á viðburð í dag vegna neyðarástandsins á stjórnarheimilinu.
Verkamannaflokkurinn telur nauðsynlegt að innleiða strax evrópsku tilskipanirnar en Miðflokkurinn hafnar frekara samstarfi við Evrópusambandið í orkumálum. Deilurnar eiga sér í stað í skugga áhyggna Norðmanna af sögulega háu raforkuverði í vetur.
Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu hvor í sínu horni í gær en það virðist ekki hafa breytt afstöðu þeirra.
Nokkrir flokkar á norska þinginu og hluti verkalýðshreyfingarinnar er sagður vilja að Noregur segi sig alfarið úr samstarfi við ESB í orkumálum. Sérfræðingar sem norska ríkisútvarpið hefur rætt við segja að það gæti stefnt EES-samningum sjálfum í tvísýnu. Ísland á aðild að samningnum auk Noregs og Liechtenstein.
Þingkosningar eiga að fara fram í Noregi í september. Gangi Miðflokkurinn úr ríkisstjórninni þyrfti Verkamannaflokkurinn að reiða sig á stuðning nokkurra flokka til þess að koma málum í gegnum þingið.