Í morgun var greint frá því að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefði stöðvað framkvæmdir við húsið umdeilda að Álfabakka 2 að hluta. Nánar tiltekið hafa framkvæmdir við fyrirhugaða kjötvinnslu á jarðhæð hússins verið stöðvaðar vegna skorts á mati á umhverfisáhrifum.
Ætluðu að taka húsið á leigu fyrir kjötvinnslu og aðra starfsemi
Hagar hafa áform um að taka húsnæðið á leigu undir starfsemi kjötvinnslu og aðra tengda starfsemi.
Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Haga segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið hafi verið upplýst af eigendum Álfabakka 2 ehf., sem er eigandi hússins, í dag að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar í húsnæðinu.
„Eðli máli málsins samkvæmt þá breytir þetta áætlunum okkar um flutning á starfsemi okkar í húsnæðið. En það á eftir að koma betur í ljós með hvaða hætti. Við gerum ráð fyrir að eigendur Álfabakka 2 ehf. vinni að úrlausn málsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld og niðurstaða náist sem allir geti fellt sig við,“ segir Finnur.
Borgarstjóri tók við á þriðja þúsund undirskriftum
Húsið að Álfabakka 2 hefur verið verulega umdeilt, bæði á meðan það var á frumbyggingarstigi og eftir að veggir þess voru reistir. Þá blasti flennistór grænn veggur við íbúum í nærliggjandi íbúðarhúsi að Árskógum 7.
Íbúar í húsinu, sem er í eigu Búseta, afhentu borgarstjóra undirskriftalista í íbúð formanns húsfélagsins á mánudag. Þeir sem rita undir vilja að framkvæmdir við húsið verði stöðvaðar að fullu og undirskriftir eru vel á þriðja þúsund.